miðvikudagur, 1. apríl 2020

Aprílgabb?

Æ, nei takk, sama og þegið. Þrátt fyrir að hafa mikið gaman af gríni og glensi þá hefur aprílgabbið aldrei heillað mig, hef aldrei sóst eftir því að gabba nokkurn mann á þessum degi. Hef heldur aldrei spáð í hvaða frétt gæti verið gabbfrétt ársins, fylgist líklega ekki nógu vel með fréttum hvort eð er. Geri þó fastlega ráð fyrir að það verði ekki hlaupið að því að fá fólk til að hlaupa á þessum síðustu og verstu. Aprílgabbið á tímum Covid19.....

Get sagt ykkur grínlaust að mér líður eins og febrúar hafi verið í þar síðustu viku og allt í einu er mars ekki bara kominn, heldur farinn líka. Það er ekki mikilli fjarvinnu fyrir að fara í matvöruverslun svo heimavinna er fyrirbæri sem ég tengi ekki við nema þá helst er ég bruna til vinnu á morgnanna, hef ekki brunað svona fljótt og ljúflega úr húsum á mela síðan í jólafríinu. 

Þvottavélin mín, sem ég vil enn segja að sé ný, harðneitar að vinda þvottinn, dembir á mig blammeringum um "hleðslu ójafnvægi" og ber svo fyrir sig "hléi". Vandamálið er að vélin vatt svona upp á sig í gærkvöldi, það er því engin leið fyrir mig að flokka þetta undir aprílgabb. Ofurhetjan mín er í sjálfskipaðri sóttkví í sveitinni og því eru góð ráð dýr, enginn er heldur eiginmaður til að hlaupa undir bagga. 

Svo hvað gerir nýlega fráskilin kona með nýlega þvottavél með mótþróa? Hún bregður að sjálfsögðu góðri plötu á fóninn, skenkir sér rauðvín í glas, hitar upp rándýra afganga sem tóku 3 tíma af tíma hennar um helgina sem leið og lyktar af rósunum í blómvendinum sem hún keypti handa sjálfri sér þá sömu helgi. 

Legg ekki meira á ykkur, afsakið hlé.

Engin ummæli: