sunnudagur, 19. apríl 2020

Á páskum og eftir ...

Um páskana 
  • las ég og las og las og las
  • drakk kaffi í rúminu og las
  • lagði mig um miðjan dag með kisunum mínum
  • eldaði helst ekki mat nema eldamennskan tæki að lágmarki 1,5 klstund
  • hlustaði á glás af tónlist sem ég hlustaði á þegar ég var 20+
  • það var gaman
  • hlustaði líka á fullt af jassi eins og Melody Gardot
  • óhlýðnaðist Víði
Af hverju óhlýðnast svo kona á miðjum aldri yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra? Jú, vegna þess að hún hlýðir móður sinni. Af því að mamma vildi fá mig í mat á páskum þá hringdi ég í hjúkrunarfræðing fjölskyldunnar og spurði ráða. Eftir að hafa svarað ýmsum spurningum um möguleg einkenni neitandi fyrirskipaði Bogga systir að ég yrði að fara beint úr sturtu í nýþvegin föt og út. Jújú, ég mátti alveg þurrka mér eftir sturtuna sko en ég nennti samt ekki að blása á mér hárið.

Páskamáltíð mömmu var óneitanlega dásamleg sem og samverustund með foreldrum mínum. Komin í skúrinn tóku þau ekki annað í mál en að ég gisti yfir nótt. Varð það á að segja föður mínum frá einkennilegum hljóðum í bílnum mínum, pabbi var snöggur að skríða undir garminn og finna út úr vandamálinu. 

Á þriðjudagsmorgunn hringdi faðir minn og sagðist vera búinn að gera verðkannanir á varahlutum og að hann væri búin að panta það sem ég þyrfti á hagstæðasta staðnum. Eftir vinnu brunaði ég og sótti það sem til þurfti á nafni föður míns. Eftir vinnu á föstudegi verslaði ég inn eftir uppskrifuðum lista frá móður minni. Brunaði heim í sturtu og nýþvegin föt þar á eftir áður en ég brunaði aðra helgi í röð vestur í skúr til foreldra minna. 

Í þetta skiptið gisti ég í 2 nætur. Mamma fóðraði mig á mat, pabbi gerði við bílinn minn. Legg ekki meira á ykkur að sinni, elsku vinir.

Engin ummæli: