sunnudagur, 10. október 2021

Súpu-gott

Á nýliðnu föstudagskveldi fletti ég af mér hamnum, íklædd náttfötum, og sagði bestu vinkonu minni upp og ofan af öllu því góða og öllu því ekki eins góða sem hringsnýst í lífi mínu þessa dagana. Töluðum um liðna atburði í bland við drauma sem enn eiga eftir að rætast, vonir og þrár. Nostruðum við sameiginlegt áhugamál (Camparidrykkju), fífluðumst og hlógum, hlustuðum á hverja hljómpötuna á fætur annarri og hikuðum ekki við að taka sporið á stofugólfinu ef slíkt lag bar undir.

Nú þegar frúin er aftur komin í efri byggðir kemur sér vel að vera með aukaherbergi fyrir góðar vinkonur að gista í. Langt fram eftir laugardegi héldum við áfram að tala, drukkum appelsínusafa og sötruðum kaffi með ristuðu brauði með afgöngum af ostum frá kvöldinu áður. Skeyttum engu um tímann sem flaug hjá enda tíminn aukaatriði hvort sem hann er í sekúndum, mínútum, dögum eða árum þegar sannir vinir eru annars vegar.

Eftir tíð og ströng verkefnaskil ásamt prófi er langþráð lotufrí hafið í skólanum, engu að síður var ég ákveðin í að einbeita mér að aðferðafræðinni í dag. Vaknaði fyrir allar aldir (ekki skipulagt), hámaði Myrkrið á milli stjarnanna eftir Hildi Knútsdóttur í mig ásamt því að drekka ófáa kaffibolla í bælinu. Rauk því næst á lappir og dembdi mér út í göngutúr í algjörri stillu og sólin skein svo blítt, engu að síður var göngutúrinn fremur svalur. Kom heim og fór beinustu leið í náttfötin aftur. Reif því næst í mig Launsátur Jónínu Leósdóttur. 

Skemmst er frá því að segja að ég hef engu námi sinnt í dag. Samviskulaus lestur á skáldsögum hinsvegar hefur veitt mér mikla ánægju. Að auki mallar kjötsúpa á eldavélinni hjá mér. Þrátt fyrir að lambakjötið sé íslenskt er súpan sögð írsk, skv. uppskriftinni. Hef enda aldrei eldað kjötsúpu áður, hvorki íslenska né írska. Legg ekki meira á ykkur.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elska þig elsku vinkona og það hvað þú ert góður penni <3