Snemma á síðasta ári keyptu foreldra mínir, óumbeðin, eldhúsrúllur í Costco handa mér. Ég held að í hverri magnpakkningu af Costco pappír séu einar 10 rúllur og hvert blað er c.a. fermeter svo ég bað mömmu um að taka megnið af eldhúsrúllunum með sér þegar þau færu. Jájá, sagði mamma og skildi þær svo allar eftir, veitir heldur ekkert af fyrir konu sem er ein í heimili.
Þau gerðu sér lítið fyrir og keyptu líka klósettpappír handa stelpunni. Jú, þið giskuðuð rétt, í Costco. Í gær var ég loksins komin á seinustu rúlluna af skeinirnum. Ég þurfti aðeins að snattast fyrir föðurbróður minn eftir vinnu og fleygja nauðsynjavörum í vinkonu í sóttkví, þegar ég loks brunaði heim á leið var mér orðið frekar mikið mál að míga. Íhugaði í 23 sekúndur að bruna bara beint heim en varð þá hugsað til mömmu æskuvinkonu minnar en hún gleymdi stundum (oft) að kaupa klósettpappír og því var oftar en ekki skeint sér á kaffipoka á því heimilinu. Nú vill reyndar svo til að ég á kaffipoka en ég afréð samt að koma við í búð á heimleiðinni, var hálft í hvoru búin að láta mér hlakka soldið til að velja mér sjálf skeinipappír, en staldraði þó ekki lengi við valið þar sem ég var jú í spreng.
Fleygði af mér jakkanum en gaf mér ekki tíma til að fara úr skónum (ég var í alvörunni í spreng krakkar). Þar sem ég sat á stellinu og sprændi blasti við mér glæný pakkning af.....jú, þið giskuðuð rétt, klósettpappír úr Costco.
Hringdi í mömmu og spurði hvort hún og pabbi hefðu verið í bænum. "Já, æ, við vöknuðum svo snemma og vorum bara í stuði og brunuðum í bæinn, sáum einmitt að þú varst á síðustu rúllunni svo við splæstum bara í meiri pappír handa þér elskan." Uh, já, takk mamma mín, ég kom einmitt við í búð á leiðinni heim og keypti skeinir. "Ég spurði pabba þinn hvort við ættum ekki að hringja í þig fyrst og hann sagði neinei, við kaupum bara klósettpappír handa stelpunni!"
Einhvern tímann á næsta ári, þegar ég þarf aftur að kaupa klósettpappír, er eins gott að ég muni að hringja í foreldra mína til að athuga hvort ég sé ekki örugglega á seinustu rúllunni. Ætla rétt að vona að þau lesi ekki þessa færslu, ég er nefninlega líka á seinustu eldhúspappírsrúllunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli