sunnudagur, 9. mars 2014

Matur & fjör

Talandi um mat þá drifum við foreldra mína á Food & Fun um helgina síðustu. Komum á þéttsetinn staðinn rétt fyrir níu og hófum kvöldið á fordrykk í setustofunni þar sem borðið okkar var ekki laust. Rúmum hálftíma síðar skáluðum við í freyðivíni sem var það fyrsta sem borið var á borð þegar okkur var loks vísað til borðs. Borð lengst inni í horni í enda veitingastaðarins. Tveimur borðum frá voru vinir okkar, Þóra og Svavar, að klára síðasta kaffisopann. Meðan þau stóðu við borðið okkar að spjalla birtist þjóninn með forréttinn. Allt í einu fer Þóra að hósta. Og hósta. Og hóstar svo meira og pabbi hnerrar og Pétur byrjar að hósta og síðan mamma og ég tek eftir því að flestir á staðnum eru hóstandi og hnerrandi og helmingur búinn að bera servíettuna fyrir vitin og þá byrja ég að finna fyrir fáránlegri ertingu í hálsinum, ertingu sem lætur ekki að sér hæða en lætur mig hósta og hósta án þess að ég fái nokkru ráðið. Áður en ég veit af er ég líka búin að hnerra og bera servíettuna fyrir vitin og Pétur er kominn langleiðina út sem og hálfur veitingastaðurinn. Þjónarnir labba um og ráðleggja fólki að fara út fyrir. Úti á gangstétt er fólk hissa og ringlað en gleðst þó fljótt er þjónarnir birtast með glös og freyðivínsflöskur og skenkja eins og óðir menn með heilan veitingstað á gangstéttinni. Allir virðast komnir út; matargestir, þjónar, kokkar og útlenski gestakokkurinn. Kátína hleypur um sig í kuldanum í bland við stóru spurninguna; hvað var þetta? Enginn veit svarið en þjónarnir halda áfram að skenkja og brosa og bera út bjór í ofanálag ofan í liðið sem dregið hefur athygli húsráðenda í kring út í glugga með furðusvip, skyldi engan undra


  
Eftir að búið var að lofta út eins og hægt var, m.a. með því að opna allt upp á gátt, var okkur í annað sinn þetta kvöld boðið til borðs á borði beint á móti útidyrahurðinni. Inni í horni í enda veitingastaðarins þar sem við áður sátum var ekki vinnandi vegur að vera og ekki á neinum öðrum borðum þar í kring. Tveimur af þremur klósettum staðarins var lokað og enn eimdi eftir af þessu sem enginn veit hvað var í loftinu. Vorum ánægð með opna hurðina beint á móti okkur og ekki síður ánægð að geta loks bragðað á forréttinum hálf ellefu um kvöld. Þjónarnir héldu eftir sem áður áfram að skenkja fríkeypis freyðivín í glösin og þjóna gestum með stakri prýði og bros á vör þrátt fyrir þessa óvæntu uppákomu, uppákomu sem væntanlega verður aldrei útskýrð, að minnsta kosti ekki fyrir matargestum 

Eftir prýðilega máltíð og töluverðar vangaveltur erum við nokkuð viss um að þegar við verðum löngu búin að gleyma matseðlinum eða hvernig príma matseld útlenska Food&Fun kokksins bragðaðist, þá munum við seint gleyma þessu kvöldi



1 ummæli:

ella sagði...

Vá, spes upplifun! Gaman að velta fyrir sér hvaða þankar byltust um á bak við bros þjónanna. Greyin þeir.