fimmtudagur, 23. október 2008

Ástand

Undanfarna daga hefur pissustand átt sér stað á heimilinu. Reyndar ekki á mér, en ég hef víða fundið miður geðfellt kattahland um þessa 47 fermetra sem ég kalla heimili mitt. Ég hef ekki haft tíma til að dást að því hvað kettir geta greinilega migið hátt upp um veggi, þar sem ég hef vart haft undan að vinda tuskuna, og er nú í fyrsta sinn síðan ég flutti, búin að handskúra alla þessa 47 fermetra. Ég hef orðið vör við ýmsa mismunandi ketti á sveimi við íbúðina mína, og komið að tveimur bláókunnugum köttum á eldhúsgólfinu hjá mér. Ég hef því ekki haft hugmynd um hvort hlandið komi frá mínum eigin ketti eða annarra köttum, en þó dregið þá ályktun að hugsanlega gæti Dagurinn minn verið að míga út um allt, til að verjast ágangi annarra katta. Eitt er þó á hreinu; ég held ég hafi sjaldan átt jafn miklar samræður við annað fólk um kattarlufsuna, og hugsanleg úrræði til að koma í veg fyrir stöðuga kattahlandsfýlu, sem satt best að segja er langt frá því að jafnast á við góðan bökunarilm þegar maður kemur inn úr dyrunum.

Ég fékk foreldra mína í heimsókn sl. helgi. Það var reglulega gaman að hitta þau, ekki bara af því mamma eldaði góðann mat handa okkur og við drukkum doldið af góðu rauðvíni, það var bara gott að hitta þau. Við ræddum að sjálfsögðu ástandið á heimilinu og ég kvartaði sárann yfir lykt í eldhúsinu sem ég botnaði ekkert í, og virtist ekki með neinu móti geta komið í veg fyrir, þrátt fyrir ítrekaðar þrif-tilraunir.


Á mánudagsmorgun hringdi pabbi í mig til að láta mig vita hann væri farinn á músaveiðar. Þau hjónakornin hefðu í hægindum sínum ákveðið að færa til ísskápinn hjá mér, þar sem mömmu sýndist grunsamleg korn vera þar undir. Þau voru sem sagt búin að komast að því að fnykurinn í eldhúsinu mínu stafaði af uppsöfnuðum músasaur, og það töluverðum. Um kvöldið fórum við pabbi eins ítarlega og við gátum yfir ísskápinn, en fundum enga mús né líklegann felustað fyrir mús. Töldum þó vissara að skilja eins og tvær músagildrur eftir með smotterís ostbita í.

Þriðjudagskvöldið greip ég kattar-skömmina glóðvolga þar sem hann sprændi lengst upp á fataskáp, var skammaður undir drep og hefur í kjölfarið ekki migið á fleiri staði. Músafnykurinn í eldhúsinu var ferskur sem fyrr, en ég var þó ánægð að engin frekari um-merki um mús var að finna.

Í gærkveldi var ég enn og glaðari; músafnykurinn horfinn með öllu og enginn um-merki. Ég var ekki glöð er ég uppgvötaði síðar um kvöldið að ísskápurinn virtist látinn. Kæró-lumman var kölluð út, ekki þó á músa-veiðar heldur til músa-viðgerðar. Ísskápurinn komst í samt lag eftir að laghenti ístru-Pésinn minn hafði tengt saman sundurnagaða víra. Eftir ítarlegar skoðanir á ísskápnum, bakvið eldavélina, inní skápa og öll hugsanleg skúmaskot, var niðurstaðan sú sama; einu um-merkin eftir mús eru undir ísskápnum. Hvar henni tekst að halda til er enn á huldu.

Eymingjans kattalufsan, sem ég hirti hálfstálpaðann úr fjósi fyrir um 9 árum síðan, er nú innilokaður og neyðist til að míga í appelsínugult þvottafat. Hann er undir gríðarlegum þrýsting frá eiganda sínum um að reynast nú klókari en músarfjandinn, og koma henni í eitt skipti fyrir öll, fyrir kattarnef. Vandræða-Pési er nafnið sem hann heyrir orðið oftar en sitt eigið.

Það eru spennandi tímar. Ég hélt það væri þægilegra að eiga kött fyrir gæludýr en hund. En það er klárlega kæró-lumman sem er þægilegasta gæludýrið.

6 ummæli:

G. Pétur sagði...

Ó já stuð að vera gæludýr.

Nafnlaus sagði...

Jemundur minn...
Þú ert svoooo yndisleg.. :)
Og greinilega kærólummugæludýrið líka.. :)
Músa og pissu knús á ykkur.. hehee

Nafnlaus sagði...

Ég hef enga reynslu af köttum en mér líst svo á að þú eigir að snúa þér alfarið að kærólummugæludýrinu þínu. Hann virðist vel vaninn.
Kær kveðja,

Frú Sigurbjörg sagði...

Kæró-lumman er vissulega klósettvanur, en hann heimtar að komast á músaveiðar í kvöld með kettinum. Hugsanlega farinn að taka gæludýrið í sjálfum sér of alvarlega..

Nafnlaus sagði...

Piff, ekki slær þetta út vestur afrísku faraómaurana mína! ;)

Frú Sigurbjörg sagði...

Vá - hvernig gat ég gleymt þeim?!
Á ég að reyna að fá kærólummugæludýrið á sveif með mauraveiðar??