Var nauðsynlegt að skilja? spurði frúin sjálfa sig þar sem hún skreið um blettinn með glænýjar grasklippurnar. Við hvert snip í skærunum velti hún því fyrir sér af hverju hún hefði ekki líka keypt hrífu í gær þegar hún asnaðist til að kaupa þessar heimskulegu klippur. Þegar svo þumallinn fór að emja undan síendurteknum snip, snipum ígrundaði frúin af fullum þunga hvort það væri einhver smuga að krefjast þess að fá slátturvélina þrátt fyrir að 6 mánuðir væru nú liðnir síðan hún yfirgaf heimili sem var aldrei hennar í raun.
Ekki misskilja mig, klippurnar svínvirka, það er garðelja konunnar sem er að klikka. Það er því einungis tvennt í stöðunni; annað hvort fæ ég mér hross á veröndina eða kem mér í kynni við fjallmyndarlegann karlmann sem er reiðubúinn að slá hjá mér blettinn, ber að ofan, óháð veðri, hvenær sem ég þarf á því að halda.
Eitt get ég sagt ykkur, í fúlustu alvöru, hér eftir verður grasbletturinn minn aldrei kallaður neitt annað en tún. Legg ekki meira á ykkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli