laugardagur, 22. júní 2024

Vofveiflegur ótti

Þegar ég var lítil stelpa var ég logandi hrædd við manninn hennar Sirrýjar. Eins og ég man þetta þá var hann á háum hælum, í hvítum kjól, með rauða hárkollu og dró á eftir sér sleggju. Hann var vofan sem drap fólk í Sjónvarpshúsinu á Laugavegi.

Mörgum, mörgum árum síðar þegar ég var orðin ráðsett frú á fertugsaldri rákumst ég og þáverandi maðurinn minn á Sirrý og manninn hennar á flugvelli úti í heimi. Þá þekkti ég Sirrý ekki neitt en hins vegar þekktust þau og minn fyrrverandi. Eins og ég man þetta þá var Sirrý upptekin af að fylgjast með töskubandinu en maðurinn minn og maðurinn hennar tóku spjall saman. Þá komst ég því að "rauðhærða vofan" virtist vera frekar næs gaur.

Þegar ég svo síðar skildi við manninn minn og keypti mér íbúð þá var það maðurinn hennar Sirrýjar sem seldi mér tryggingar. Í gærkveldi stóð ég svo í garðinum heima hjá þeim og hélt lítinn ræðustúf sem hófst á þessari sögu.

Rétt rúmu ári eftir að ég skildi hóf ég nám við Háskólann á Bifröst og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Sirrý sjálfri. Á Bifröst hefur hún það vandasama verkefni að kenna nemendum skólans örugga tjáningu, verkefni sem hún leysir löðurmannlega af hendi með gleði, röggsemi og einstakri hlýju. Í garðinum í gær var ég umvafin samnemendum sem flest, ef ekki öll, eru aftur komin í áfanga til Sirrýjar því þar er gott að vera. Það er langt í frá stresslaust að stíga fram og biðja um orðið, jafnvel ekki með öllu óttalaust að tjá sig af öryggi, líka í hópi kunningja og vina. Í gær var ég þakklát að standa frammi fyrir frábærum samnemendum mínum sem ég er lánsöm að hafa fengið að kynnast er við fetum saman skrefið í átt að öruggri tjáningu með skoðanaskiptum, hlustun, ræðuhaldi, ræðukeppni, spuna og einlægum samræðum. 

Í hvert skipti sem við horfumst í augu við okkar eigin ótta, og tökumst á við hann eftir bestu getu, styrkjumst við. Oft á tíðum er óttinn líka óþarfur, tilbúningur í okkar eigin hugsunum og ranghugmyndum um eigið sjálf. Í gær komst ég t.d. að því að Kristján Franklín er hörku leikari og engin ástæða til að óttast hann neitt frekar, af honum skín ekkert nema góðmennska og einlægni

Katla og Kristján

Ég ætla samt alveg að láta það eiga sig að horfa á Drauga Sögu aftur, jafnvel þó að það verði bráðum 40 ár síðan ég sá hana síðast.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

<3

Nafnlaus sagði...

Þú plumar þig vel mín kæra

Frú Sigurbjörg sagði...

Það er svo gaman að fá ummæli hér á vefsíðunni og kærar þakkir fyrir, en mikið væri gaman að vita hver þið eruð nafnlaus og nafnlaus....

Hermann sagði...

Þú ert alveg mögnuð 🙂

Frú Sigurbjörg sagði...

Takk kæri vinur.