laugardagur, 26. október 2024

Talandi um bækur

Í geðshræringunni miðri, komin aftur til Parísar eftir að hafa verið greind öðru sinni með bannsett óbermið, koma mér undan síðasta leggnum af húsaleigusamningnum, rembast við að skila af mér ritgerð og taka próf milli þess sem ég grét og bölsótaðist út í arga loftið fyrir að kippa undan mér draumnum datt ég niður á færslu á fésbúknum þar sem Harry Hole bálkurinn var auglýstur gefins. Ég var fljót að grípa glæpagæsina ásamt því að panta flugmiða, aðra leið, til Íslands og pakka ofan í töskur.

Auðvitað voru það mamma og pabbi sem sóttu mig á flugvöllinn þegar ég kom til baka. Á leiðinni frá vellinum stoppuðum við í Hafnarfirði til að sækja bækurnar. Hitti þar fyrir yndislega konu og köttinn hennar. Brunuðum því næst beina leið til Ólafsvíkur. Þegar ég flutti til Parísar flutti ég lögheimili mitt til foreldra minna. Aldrei hefði ég þó átt von á að eiga eftir að búa í Ólafsvík en sú varð þó raunin þessa mánuði sem það tók að jafna mig eftir uppskurðinn og þann tíma sem lyfjameðferðin tók. 

Að ég ætti þar á eftir eftir að færa mig um set til Ísafjarðar er svo önnur saga en nú er komið að því að einhver annar fái að njóta afraksturs Jo Nesbö því bæði er ég hætt að safna bókum (ótrúlegt en satt) og bækur á að lesa. Leynist einhver þarna úti sem hefur lengi dreymt um að lesa allar bækurnar um hinn harðsoðna Harry Hole lögreglufulltrúa? Ef svo er bið ég þig vinsamlegast um að gefa þig fram og þessi stafli verður þinn

Engin ummæli: