fimmtudagur, 27. júlí 2017

Ég er prinsessa

Síðasti dagurinn í Bordeaux að kveldi kominn. Þrátt fyrir fantafína spá var dagurinn sólarlaus að mestu. Get samt ekkert kvartað, erum búin að spóka okkur um í sandölum og sól, flatmaga við sundlaugina í hita sem hefur farið alla leiðina upp í 37 stig (heldur mikill hiti fyrir tvo Íslendinga), setið úti á veitingastöðum og vínbörum og dæst af hreinum (vín)anda.

Annan hvern dag hefur sá myndarlegi skotist í bakaríið að sækja nýja baguettu og croissant handa frúnni. Hinn daginn steikir hann baguettuna, niðurskorna, frá deginum áður og ber fram með steiktum eggjum. Þegar baguettan er ný sýður hann eggin. Linsoðin, að sjálfsögðu. Með þessu gæðum við okkur á frönskum ostum, skinkum og eðal appelsínusafa. Einn sumarfrísdaginn þegar sá myndarlegi vakti mig með kaffibolla sagði hann; þú ert nú meiri prinsessan. Svar mitt var einfalt (enda nývöknuð); ég veit.

Þrátt fyrir sólarleysi dagsins sit ég úti við laugina, í kjól sem ég keypti mér í Marokó um páskana. Kampavín í glasi, berfætt. Hvar er sá myndarlegi? spyrjið þið. Nú, hann er að pakka, hver annar á að gera það?

Engin ummæli: