Kreisti límónu og komst að því að ég er með blaðskurð á vísifingri. Lét sem ekkert væri þrátt fyrir stingandi sviða, hélt bara áfram með eldamennskuna. Soldið eins og að byrja aftur að vinna eftir undursamlega dásamlegt sumarfrí. Finnst eins og fingurnir séu stirðir er ég hamra inn tölur í uppgjörum liðinna daga. Vanalegur músarfimleiki fremur óliðugur. Sumarfrísleti hríslast um kroppinn, sumarfrísværð eins og þoka í höfðinu. Hélt í allan gærdag að það væri þriðjudagur. Allur dagurinn í dag var fimmtudagur, á morgun ætti því að vera föstudagur.
Sá myndarlegi heldur því fram að einhver hafi einhverntíma sagt einhvað á þá leið að allar ferðir séu ferðir heim. Hvað svo sem til er í því þá er alveg rétt að það er alltaf gott að koma heim þó að heim þýði að þá þurfi að mæta í vinnuna, skúra gólfin, versla í matinn og allt hitt daglega snöflið. Heim þýðir líka ískalt og gott vatn úr krananum, klapp og kúr með kærasta kettinum, frískandi súrefni í hausinn á góðri göngu ásamt svo mörgu öðru sem er hreint ekki sjálfgefið en oftar en ekki sjálftekið.
Að auki er fáránlega gott að vefja sér inní sína eigin sæng.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli