Plís, ekki hringja í lögguna en djöfull væri ég til í að vera í vímu núna, þ.e.a.s. einhverri betri en sársaukavímunni sem hrjáir mig. Vaknaði í gærmorgun með þvílíkan verk í hægri öxlinni, verk sem teygði sig uppí háls og smaug á stundum niður í handlegg. Verk sem gerir það að verkum að ég sný mér allri til hliðar ef ég ég þarf að snúa höfðinu til hægri.
Þrátt fyrir verki er ég búin að taka úr uppþvottavélinni, smjörsteikja þorskhnakka og fara í sjóðandi heitt bað. Sá myndarlegi er búin að tala út í geim um að ég þurfi að panta mér tíma hjá sjúkraþjálfara og helst að fá einn til mín í vinnuna til að sýna mér hvernig ég eigi að bera mig að við skrifstofustörfin. Að auki er hann búinn að nudda og þrýsta og kremja og kreista og segja; já, þetta á að vera vont, síðan verður það gott. Ég læt mér nægja að súpa hveljur. Sit reyndar núna við eldhúsborðið og sýp á hvítvíni frá Bordeaux. Sá myndarlegi segir að ég eigi frekar að taka Voltaren töflur nema við eigum engar slíkar töflur til, bara Voltaren krem.
Það má vel vera að áfengisvíma geri ekkert fyrir verkinn en ég prísa mig sæla að geta yfirhöfuð lyft glasinu að vörum mér. Á tímum sem þessum biður kona ekki um mikið meira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli