miðvikudagur, 16. ágúst 2017

Afmælisskál!

Var svo áfjáð í kaffi í morgun í vinnunni að ég hellti því ekki bara upp í mig heldur yfir hökuna líka þar sem það lak niður á bolinn minn og skvettist svo á hendurnar á mér og á gallabuxurnar mínar þegar ég brást við þessum ósköpum. Eins og rjúkandi nýlagaður kaffiilmur er nú góður þá get ég alveg staðfest það hér og nú að köld kaffilykt í fatnaði er töluvert síðri. Það væri auðvitað voða gott að geta bara kennt axlarverknum um en líklega var það bara kaffigræðgin í konunni sem tók alla stjórn. Svo væri alveg hugsanlegt líka að kenna þessum Melabræðrum um fyrir að hafa svona svívirðilega gott kaffi á boðstólum en fjandinn hafi það, ætli fullorðin kona eins og ég verði ekki að axla sína ábyrgð á eigin gjörðum. Mætti annars í vinnuna í morgun í næfurþunna skæslega jakkanum mínum enda veðrið eftir því, sólbjart og fallegt. Mígandi rigning þegar ég ætlaði að labba heim. Gat skeð. Hinn Péturinn í lífi mínu aumkaði sig yfir mig og skutlaði mér heim að dyrum. Jájá, það er ekki allt á afturfótunum í henni veröld.

Sit við eldhúsborðið með fullt mjólkurglas af vodka. Er svo skrambi heppin með gott skyldfólk sem er örlátt á góð ráð. Ekki bara benti hún Inga frænka mér á að sterkt áfengi væri líklega betra en hvítvín, hún bað mig einnig um að ofgera mér ekki á glasalyftingum og nota bara rör. Að sjálfsögðu læt ég undan slíkri umhyggju. Sá myndarlegi er á deiliskipulagsfundi vegna Borgartúns 24, var að senda mér sms; hitafundur, stendur enn. Ætti kannski að vera að elda kvöldmat en æ, ég nenni því ekki, hann getur bara fengið sér vodka eins og ég þegar hann kemur heim.

Af öðrum merkilegum viðburðum dagsins get ég deilt því með ykkur að Madonna á afmæli í dag. Eftir því sem ég frómast veit mun það eiga sér stað einu sinni á ári.
Skál fyrir því!

Engin ummæli: