sunnudagur, 16. júlí 2017

Liberté, égalité, fraternité!

Í fyrradag röltum við myndarlegi útá strætóstöð sem er steinsnar hér frá í úthverfinu sem við dveljum í hér í Bordeaux. Án þess að vita nokkuð um tímasetningar þá römbuðum við akkúrat á strætóinn "okkar", rétt komin. Nema hvað, við stóðum hinumeginn á götunni og horfðum því á strætóinn "okkar" bruna framhjá. Klukkutími í næstu ferð svo við afréðum að halda í hálftíma göngu á sporvagnastöðina. Með sporvagninum komumst við svo niður í miðbæ þar sem við röltum um í brakandi blíðu, dáðumst að stórkostlegum byggingum, fylgdumst með hlæjandi börnum hlaupa hálfber í Spegli vatnsins, furðuðum okkur á stærð árinnar La Garonne sem er ekkert minna fljót en á, fengum okkur drykk, snæddum versta kvöldmat ferðarinnar (vonandi), fengum okkur annan drykk, týndum okkur í iðandi mannfjölda á þjóðhátíðardegi Frakka. 

Flugeldasýningin um kvöldið var ekkert minna en frábær þó hún hafi ekki átt roð í flugeldana á Fiskihátíðinni miklu á Dalvík. Frakkarnir voru heldur ekkert á við Íslendinga, t.a.m. sáum við aldrei vín á neinum þrátt fyrir að fólk sæti víðsvegar um hafnarbakkann og dreypti á víni og bjór. Mér fannst fólk almennt lágstemmdara og með meiri kurteisisbrag. Aldrei leið mér heldur eins og ég kæmist hvorki afturábak né áfram í allri mannmergðinni, og hún var ekkert lítil get ég sagt ykkur. Það var eiginlega ekki fyrr en við vorum komin inn í sporvagninn heim, sem við vorum hreint ótrúlega lukkuleg með að hafa komist í í fyrstu atrennu, sem mér fór að líða eins og sardínu í dós. Allar hinar sardínurnar voru jafn glaðar og ég þegar sporvagninn fór loks af stað og ýmist sátu eða stóðu af sér ferðina með gleði og bros á vör.

Í gær drifum við myndarlegi okkur í bíltúr síðdegis. Ókum framhjá vínekrum, vínekrum, maísökrum, vínekrum, vínekrum og maísökrum, vínekrum, vínekrum og svo fleiri vínekrum. Röltum um litla undurfallega miðaldabæi sem lúrðu á ævafornum klaustrum og kirkjum, borgarveggjum og hliðum, torgum og húsum, fangelsi og ráðhúsum, skemmtilegum svölum og hurðabönkurum. Eftir að hafa þrætt veitingastaði Cadillac bæjar og komist að því að þau sem ekki voru lokuð opnuðu ekki eldhúsin fyrr en um eða eftir átta, römbuðum við á vínsafn korter í lokun þess og fengum ekki bara að skoða safnið heldur fengum við líka vínsmökkun. Fransmaðurinn hellti nokkuð drjúgt í glösin okkar og hellti ég úr þeim flestum fyrir næsta smakk. Úti á bílaplani reif ég upp bílhurðina beint á ennið á mér. Ekki meira rauðvín fyrir þig sagði karlinn rogginn enda kláraði hann úr öllum sínum glösum.

Af þessu hef ég dregið þann lærdóm að ávalt skal klára hvern dropa úr vínglasi.

Engin ummæli: