Þreif ísskápinn í gær. Það var þjóðþrifaverk get ég sagt ykkur. Langt síðan ég hef legið á sófanum yfir glæpaþætti jafn samviskulaus og í gær. Svei mér þá ef það var ekki bara auðveldara að koma sér framúr í morgun líka. Ísskápsþrif gera andlegan gæfumun. Mæli með því.
Talandi um glæpi þá var ég að lesa bók um heldri mann í sjálfskipaðri útlegð í sænska skerjagarðinum. Maðurinn atarna átti gamlan hund og gamlan kött. Einn daginn birtist gömul kona úr fortíðinni tifandi yfir snjóinn með göngugrind og var þá bókin bara svona rétt u.þ.b. að byrja. Allan tímann meðan ég las um ferðalag djúpt inní skóg í kulda og snjó, svarta, djúpa, ísilagða tjörn, óvænta dóttur, rauða skó, einhenta konu, vandræðaunglinga, sjálfsvíg, víndrykkju, krabbamein, veislu, póstbát og sjóböð fannst mér eins og Wallander ætti eftir að spretta þarna fram, beið hálft í hvoru eftir honum, sem er kannski pínu skrýtið þar sem hin bókin sem ég hef lesið eftir Mankell er Kínverjinn og sú bók hefur ekkert með Wallander að gera frekar en Ítalskir skór. Má af þessu draga þann lærdóm að sjónvarpssófaglæpagláp smeygir sér ísmeygilega í undirmeðvitundina.
Er annars búin að finna flekkótta svertingjann, eða þ.e.a.s. ég er búin að finna sönnun þess að flekkótti svertinginnn er ekki hugarburður frúarinnar eins og hér má sjá. Nú er bara að finna bókina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli