sunnudagur, 18. september 2016

Bóní Emm

Karlinn dreif sig í ræktina og ég dró fram eina af gömlu Boney M. plötunum hennar mömmu



















Næturflug til Venusar var vel á veg komið þegar ég fór eitthvað að kíkja á fyrra plötualbúmslafið - plötuumslagið er sumsé eins og hér sé tvöföld plata á ferð en svo er ekki - og viti menn, þar leyndust gríðarlega skæslegar myndir af þessu þýska fjóreyki sem ég hafði bara aldrei á ævinni litið augum áður þrátt fyrir að hafa brugðið plötunni svona c.a. 3335 sinnum á fóninn















Nema hvað haldið þið að hafi komið uppúr kafinu þegar ég sneri myndunum við?



















Auðvitað eru þetta póstkort, fólk var svona heilt yfir ekkert mikið að senda e-mail þarna árið 1978, miklu meira tekið að draga fram blýantinn og splæsa í eins og eitt frímerki. Dreplangar auðvitað að senda mömmu eitt af þessum póstkortum og spyrja hana að því hvort hún hafi vitað af þeim þarna í plötuumslaginu. En, ég tími því ekki. Sorrí mamma.

Dró líka fram kokteilhristarann (hvort ég dró Bóní M. eða hristarann fram á undan fæst ekki gefið upp hér). Eigum Tropical safa sem eiginmanninum þykir voða góður. Ég hinsvegar er ekki alveg jafn hrifin en hugsaði með mér að rétt væri að gefa honum annan sjéns, eins og sagt er. Trópíkalsafi hristur saman með limesafa, rommi, sykurlausn og campari gerir víst eitt stykki koketil sem ber heitið Heimspekingur erlendis



















Hvort heimspekingurinn sá fór erlendis með næturflugi til Venusar er á huldu, drykkurinn hins vegar er ekki mikið meira en skítsæmilegur. Ákvað að demba meiri skvettu af uppáhalds hráefninu mínu útí drykkinn, Kamparí. Áfram skítsæmilegt. 38 ára gömlu slagararnir af Næturfluginu stóðu þó fyllilega fyrir sínu, slátturinn í Raspútín, niðurinn af Babýlon ánni og brúna stelpan í hringnum. Persónulegt uppáhald er þó alltaf þetta. Stúlka ætti heldur aldrei að skipta um elskanda um miðja nótt. 

Engin ummæli: