þriðjudagur, 18. janúar 2022

Rás 2

Í gær gekk ég inn í Hörpu, ekki til að fara á tónleika heldur til að fara í hraðpróf. Fyrsta skipti sem ég fer í hraðpróf. Fyrsta skipti sem ég fer í Covid-19 próf í Hörpu. Engin röð, ekki svo mikið sem önnur sála að fara í hraðpróf á sama tíma og ég í Hörpu. Lá við að ég fengi niðurstöðurnar áður en ég gekk út úr húsinu. Þrátt fyrir að hafa ekki farið í hraðpróf áður þá hef ég farið í Covid-19 próf á Suðurlandsbraut. Oftar en einu sinni, oftar en tvisvar. Hef alltaf staðið í röð. Langri röð.

Fyrir Covid-táninginn var jákvæðni betri en neikvæðni. Í dag er það neikvæð niðurstaða sem er hvað jákvæðust. Böl heimsins og allt það. 

Nei, ég fór ekki í hraðpróf af því að ég væri að fara til Parísar. Ég fór í hraðpróf af því að ég er nemandi í Fjölmiðlafærni hjá henni Sirrý og þrátt fyrir Covid-táningin er Sirrý ákveðin í að koma nemendum sínum sem mest, og best, í vettvangsferðir í raunheimum fjölmiðla eins og kostur er. Sigríði Arnardóttur tókst sumsé að koma mér og 2 öðrum Biffum í Poppland með hinum landskunna Óla Palla, geri aðrir betur. Bifrastar þríeykið mætti tímanlega, með neikvæðar Covid-niðurstöður og grímur, reiðubúnar til að fylgjast með og læra. 

Fullar af tilhlökkun, og lausar við Covid, fylgdumst við með Óla Palla skipuleggja þátt dagsins. Fylgdum honum grunlausar inn í stúdíó þar sem við héldum að við yrðum þöglir áhorfendur að því hvernig kaupin gerast á RÚV-eyrinni, en, nei, Ólafur Páll hafði annað í huga. Áður en við vissum af vorum við orðnar þáttakendur í Popplandi, kynntar oftar en einu sinni (og jafnvel oftar en tvisvar) sem sérstakir gestir frá Háskólanum á Bifröst. Þrátt fyrir algjört reynsluleysi af að tala í útvarpi held ég að flæðið hafi verið ansi gott og má þar líklega þakka grandaleysi, okkur gafst lítill tími til að stressa okkur yfir því að eiga að mæla í útvarpi allra landsmanna (rótgrónu Popplandi aukinheldur) og úr varð því nokkuð afslappað samspil þaulreynds útvarpsmanns og þrigga óþaulreyndra Biffa. 

Að auki fengum við svo einkaleiðsögn Andra Freys úr síðdegisútvarpinu sem arkaði með okkur um leyndar lendur RÚV og sparaði hvergi orðaflauminn. Góð rúsína í pylsuenda.

Engin ummæli: