Gleymi því sennilega seint er ég stóð andspænis kartöfluflögurekka í Ameríku í fyrsta sinni og upplifði svæsnasta valkvíða sem yfir mig hefur komið. Árið var 1994 og ég var komin til Irmo í Suður Karólínu til að passa 3 fordekraðar stelpuskjátur í STÓRU húsi á einkavegi sem lá niður að vatni með einkabryggju, sundlaug í garðinum, 2 hundar og 3 kettir á heimilinu. Hér heima samanstóð kartöfluflöguúrvalið af hinu sígilda Bögglís, salt&pipar og papriku Maruud, Stjörnupoppi og jú, hið galíslenska Þykkvabæjarnasl. Sjálf hafði ég aldrei farið til útlanda áður, steig í 1. skipti upp í flugvél er ég flaug frá Fróni til að gerast Ópera í Ameríku í eitt heilt ár. Skyldi engan undra þó stelputuðru hafi fallist hendur við að standa andspænis heilum gangi i matvöruverslun sem helguð var einu af hennar uppáhalds hráefnum; kartöfluflögum.
Systurnar elskuðu peanutbutter&jelly sandwishes (samlokur með hnetusmjöri og sultu) en þrátt fyrir að hafa daglega smurt slíkar samlokur ofan í þær komst ég aldrei upp á bragðið og líkar ekki enn þann dag í dag. Skv. könnun frá 2002 má áætla að meðal ameríkani láti ofan í sig 1500 slíkar samlokur áður en hann lýkur gagnfræðanámi. Það er ekki nokkur leið að vita hversu margar Pop-Tarts ég ristaði fyrir stúlkurnar og þær voru ófáar bragðtegundirnar af Kool-Aid sem ég blandaði ofan í þær líka. Skv. leiðbeiningum aftan á 1 bréfi af Kool-Aid skal demba einum bolla af sykri út í u.þ.b. 2 lítra af vatni.
Kool-Aid var ágætt, og Pop-Tarts svo sem líka, en það var Caffeine-free Diet Coke sem gerði útslagið fyrir mig og varð minn uppáhalds drykkur. Hef reyndar ekki smakkað hann síðan 1995 er ég var heimkomin í síðasta mánuði þess árs. Það var þó tvímælalaust Trix sem festi sig í sessi í mínum heimi, enn þann dag í dag er Trix uppáhalds morgunkornið mitt. Að vísu er það bannað hér á Fróni en þá skiptir líka sköpum að festa kaup á því við hvert tækifæri sem gefst en síðasta tækifæri gafst sumar 2019 í Tigre í Argentínu.
Á amreískum dögum í Hagkaup í gegnum árin hef ég oft brosað í kampinn er ég renni yfir vörurnar og kannast við hitt og þetta og ýmislegt hef ég prófað og iðulega orðið fyrir vonbrigðum, að Trixi undanskildu, að sjálfsögðu. Í gærkveldi hentist ég inn í Hagkaup í Spönginni til að grípa oststykki og konfektkassa. Við mér blasti urmull amerískra vara og ég stóðst að sjálfsögðu ekki mátið að skoða. Þurfti hreint ekki að hafa mikið fyrir því að standast Twizzlers eða Sour Patch Kids en ég endaði samt á að grípa eina vöru með mér heim
Stelpurnar elskuðu svona litlar kanilvöfflur, sem vissulega fengust í Hagkaup, en mig minnti að þessar hefðu mér þótt góðar.Þegar ég loks reif mig upp úr bókinni í morgun og drattaðist á lappir þá henti ég tveimur af þessum eðal frosnu amerísku vöfflum í ristavélina, hellti uppá kaffi og hrúgaði síðan hlynsírópi yfir stökkar vöfflurnar sem skoppuðu uppúr ristinni. Merkilegt nokk þá voru vöfflurnar góðar. Jafnvel mjög góðar.
Þar sem ég sat við eldhúsborðið og undraðist þá staðreynd að ég hefði ekki orðið fyrir vonbrigðum með vöfflurnar varð mér litið út um gluggann og sá Birtu skíta í beðið þar sem jarðarberjaplönturnar eru. Þegar hún hafði lokið sér af gróf hún í gríð og erg yfir. Því leita ég nú til vizku ykkar, frómu lesendur; er kattaúrgangur heppilegur áburður fyrir jarðarberjaplöntu?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli