...og hélt út í myrkrið með eiginmann og ferðatösku á hjólum í eftirdragi. Í svarta myrkri (ýkjur) og beljandi rigningu (ekki ýkjur) brunaði ég með upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar og forstýruna hans til KEF. Síðast er þau skötuhjú vermdu hjá mér bílsætin var ég með þau á leið frá KEF, slæpt eftir sólarhringstöf, seint um kvöld, degi á eftir áætlaða heimkomu. Misstu sumsé af tengifluginu sem þau áttu þá. Göntuðumst með það á leiðinni í nótt hvort það væri nokkur hemja að senda þau tvö saman í ferð og það til sömu millilendingaborgar. Uppá velli náði bílaröðin frá brottfararplaninu út á götu, ég beygði því í átt að langtímastæðunum og henti þeim út við næsta yfirbyggða ramp. Kvaddi þau í flýti og sá á eftir þeim inn rampinn. Rigningin var svakaleg.
Var að hella uppá kaffi, neyðist víst til að ná tökum á því þar sem kettirnir vilja ekki sjá að færa mér kaffi í rúmið. Af sms-um að dæma var ringulreið á KEF, annað þeirra skötuhjúa fór með rútu útí vél og kom aftur til baka inní flugstöðina. Nýtt hlið var kallað upp. Flugið orðið seint sem orsakaði að þau misstu af tengifluginu. Frá millilendingaborginni flugu þau til annarrar evrópuborgar til að ná tengiflugi til áfangastaðar. Á áfangastað komust þau en töskurnar ekki.
Sjálf er ég að hugsa um að skreppa í Sandholt eftir krossanti með kaffinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli