Á gaseldavélahellu einni synda niðurskornir sveppir í rauðvínsbaði. Í ofni einum lúra niðurskornar kartöflur. Þegar sveppirnir verða komnir með viskhendur af baðinu og kartöflurnar farnar að krumpast á hitabekknum ætla ég að draga fram lambalundina sem ég gekk eftir á vinnustaðinn minn. Var alveg viss um að heilsubótargangan yrði blaut en hún reyndist heit, svo heit að áður en ég gekk aftur heim var ég búin að pakka peysunni niður í bakpokann ásamt lundinni, sveppunum og rjómanum. Rjóminn fer að sjálfsögðu út í rauðvínsbaðið ásamt sveppatening, sojasósu og maizenamjöli. Þannig er sósan hennar mömmu, sósan sem ég man eftir úr Hólabergi og ætla í kvöld að hella yfir lambalund.
Af sms-i eiginmannsins að dæma eru töskurnar að lenda á áfangastað rétt í þessu. Grasekkjukvöldmáltíðin fer alveg að lenda á disknum mínum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli