fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Kistu-lagning

Í kistulagningu ömmu í dag varð mér hugsað til þess að áður fyrr voru lík oft mynduð. Ég man vel eftir myndinni af bróður hennar mömmu, sem dó 10 daga gamall, í opinni kistunni fyrir ofan rúmgaflinn hjá ömmu og afa. Ég horfði oft á hana og þótti hún falleg. Í dag langaði mig að taka mynd af ömmu, hún var svo falleg og friðsæl, næstum eins og hún svæfi værum svefni á hvítum koddanum. Ég var bara ekki með aðra myndavél en augun og hugann.

Pabbi man eftir því að afi hans var um vikubil hafður í opinni kistu í borðstofunni heima áður en hann var jarðaður. Sömu sögu var að segja um ömmu hans í sveitinni, hún var í kistunni inni í stofu í vikutíma fyrir jarðarför. Í dag er nándin við dauðann ekki svo mikil. Við virðumst fjarlægast hann meir og meir. Við fengum góðan tíma með ömmu á spítalanum eftir að hún var látin. Þó hún hefði kvatt og væri farin, þá finnst mér þessi stund á eftir dýrmæt. Og þó að kveðjan í dag væri erfið þá fannst mér gott að sjá hana aftur, strjúka kalda kinnina hennar og mjúka, þykka hárið.

Dauðinn er óþægilega endanlegur en hann er líka eina vissan í okkar heimi.

6 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Það að geta verið við kistulagningu og kvatt í friði og ró með nánustu fjölskyldumeðlimum,er svo dýrmætt. Þessi pistill er fullur af ást og söknuði og er mjög fallegur.Knús á þig.

Nafnlaus sagði...

Ég klökkna bara við það að lesa þetta hjá þér elsku Sibba mín.
Það er allt eitthvað svo satt sem þú segir um nándina og dauðann...
Svo er ég sammála Ameríkufaranum varðandi þessi skrif þín - þau eru eitthvað svo full af ást,söknuði,væntumþykju,minningum, fegurð og mörgu öðru.

Love you darling...
Knús í hús
Þín vinkona
Mía

P.s.
Er búin að vera á leiðinni í brjálað langan tíma að hringja í þig...(nú kemur einhver settning sem þú kannast við frá mér..) og er" Ég er á leiðinni...ALLTAF Á LEIÐINNI"! :)
Hvenær verður hún amma þín jarðsungin elskan mín..?

enn og aftur big bisous to you darling and lots of love <3

Lífið í Árborg sagði...

Innilegar samúðarkveðjur frá mér, það er alltaf svo erfitt að kveðja, en þá koma líka upp í hugann svo margar góðar minningar sem maður átti með hinum látna.
Kær kveðja, Þórunn

Ragnas sagði...

Ég samhryggist þér Katla mín, það er alltaf svo erfitt að kveðja ástvini sína, en það er líka svo gott að eiga allar góðu minningarnar því þær tekur enginn frá manni. Mikið finnst mér fallegur pistillinn þinn, svo fullur af kærleika og væntumþykju.
Kveðja og knús til þín.

Íris sagði...

Falleg orð full af hlýju. Sammála þér með nándina og dauðann. Í dag virðist dauðinn vera eitthvað tabú sem helst ekki má nefna þó svo hann sé það eina sem við vitum með vissu að sé partur af lífi hvers og eins. Knús til þín.

Frú Sigurbjörg sagði...

Takk kæru vinkonur Svanfríður, Mía, Þórunn, Ragna og Íris fyrir fallegu orðin og kveðjurnar.