föstudagur, 1. júní 2018

Jú, það er smá gjóla á veröndinni

en sólin skín og fuglarnir syngja og ljúfur jassinn streymir út um verandarhurðina og nágranninn er að mála kofann í næsta garði rauðan svo ég læt mig hafa það.

Í morgun lét ég mig hafa það að rífa mig á lappir í næturmorgunsárið til að keyra þann myndarlega og eldri son hans á Keflavíkurflugvöll. Síðan þá eru þeir feðgar búnir að sitja í vél Icelandair á Schippol í 40 mínútur og þegar þeir loksins komust inn á flugvöllinn sjálfann komust þeir að því að tengifluginu þeirra til Grikklands var frestað um 50 mínútur. Ég geri því fastlega ráð fyrir að þeir hafi náð því flugi og muni eiga frábæra ferð í vændum, fall er jú faraheill.

Sjálf íhugaði ég að fara bara í ræktina fyrst ég var komin á lappir svona snemma en keyrði svo bara heim og fór beint uppí rúm aftur. Hringaði mig niður í mitt rúmið en í staðin fyrir að sofna fór hugurinn á flug. Fyrsta sem ég hugsaði var; hvar ætli Dagur sé? En í staðinn fyrir að brölta aftur fram úr, til að sækja köttinn, til að hringa okkur saman niður í mitt rúmið, áttaði ég mig á því að ég væri alveg ein. Galein. Bylti mér í rúminu og snúsaði klukkuna þegar hún fór að glymja. Snúsaði þar til ég neyddist til að fara framúr.

Núna sumsé sit ég úti á verönd og sötra kampavín. Mitt uppáhalds kampavín. Karlinn var ekki búinn að fara í tengiflugið þegar búið var að spyrða mig saman við annann mann, nefninlega nafna hans í Melabúðinni, "þið hjónin" var sagt við okkur og við Pési hlógum bara. Hvað annað áttum við svo sem að gera? Við Pési eigum það þó sameiginlegt að elska ekki bara kampavín heldur er Gula Ekkjan í okkar uppáhaldi, okkur þykir vænna um dýr en menn og eigum ekki börn. Þess utan sitjum við jú saman alla virka daga en andskotinn hafi það, er hjónasvipur með okkur?

Engin ummæli: