Ef að það er einhver klisja um Parísarbúa sönn þá er það þessi
Þrátt fyrir tíðar ferðir til Parísar í gegnum tíðina hef ég reyndar aldrei séð baguettu af þessari stærðargráðu en ég heft oft séð fólk skondrast um göturnar með fjórar, sex og jafnvel átta stykki af bagettum í fanginu. Ein baguetta undir handlegg er nú bara lágmark. Það er heldur ekki óalgeng sjón að sjá Parísarbúa maula bagettue, hálfa eða heila, á göngu í borginni.
Mér skilst að veitingastöðum sé skylt að veita fólki ókeypis vatn ef það biður um það. Veit ekki hvort það sama á við um baguettuna en undantekningarlaust er hún borin á borð, niðurskorin, í körfu, hvort sem beðið er um vatn eða ekki. Stundum gæði ég mér á einum baguettubút en oftar en ekki snerti ég ekki brauðið, ekki af því að baguettan er ekki góð, mon dieu, sú besta sem fæst í gervöllum heimi! Nei, ástæðan er frekar sú að ég er yfirleitt södd áður en ég næ að klára matinn.
Önnur algeng sjón í París er þessi
Þrátt fyrir tíðar ferðir til Parísar í gegnum tíðina hef ég reyndar aldrei séð dúfur kjassa hvor aðra og allra síst fyrir framan Eiffelturninn, en vissulega eru þær víða blessaðar, líka fyrir framan turninn. Síðan ég flutti fyrir mánuði síðan hef ég ansi oft farið út að borða, á tímabili á hverjum degi í hádegi og kvöldmat og einstaka sinnum morgunmat líka. Í hvert skipti hef ég vafið 2-3 bagettubútum inn í servíettu og gefið dúfum sem á leið minni verða eftir að ég yfirgef veitingastaðinn. Ég segi sjálfri mér að ég sé ekki að stela bagettubútunum, þeir eru jú bornir á borð fyrir mig, en engu að síður er ég ósköp laumuleg er ég lauma þeim í servíettuna sem síðan hverfur ofan í töskuna mína.
Um daginn datt mér í hug að gúggla hvað dúfum í París þætti gott að borða. Kemur þá ekki í ljós að það er bannað með lögum að gefa dúfum í París að borða! 450€ sekt að viðurlagi við slíku hátterni, takk fyrir! Veit ekki hvort ég fengi nokkra sekt fyrir að taka baguettubút með mér af veitingastað en líklega hef ég verið heppin fyrir að engin lögregla var nærri þegar ég gaf dúfunum brauð í allann þennann tíma, ekki fór ég laumulega með það.
Mon dieu, c'est la vie og allt það og nú legg ég bara aldeilis ekki meira á ykkur.
1 ummæli:
Dásamlegt að lesa um ævintýrin þín elsku Katla
Kv Sara Rún
Skrifa ummæli