Fékk myndir og fréttir af elsku Birtu og Bjössa sem fluttu austur í Landeyjar tveimur dögum áður en ég flutti til Parísar. Ég hefði ekki getað óskað mér betri aðstæður fyrir elsku kisurnar mínar en þau búa núna hjá yndislegum hjónum, heldri ketti og hundi. Hjónin hitti ég þegar ég fór með yndin mín til þeirra og af þeim stafaði heiðarleiki, gleði og mikill kærleikur til dýra. Fréttir dagsins voru á þá leið að nú væru Birta og Bjössi, sem fyrst um sinn fengu heilt herbergi fyrir sig til að venjast nýjum aðstæðum, komin með samastað hjá Gosa (heldri kisunni á bænum) og að allt gengi vel. Birta og Bjössi hafa frjálsræði til að valsa út og inn af heimilinu, hafa heila sveit til að flandra um og án vafa þiggja blíðar strokur elskulegra mannvera. Eins mikið og ég er óendanlega þakklát fyrir að vita af þeim tveimur hjá slíku sómafólki er ég að sama skapi jafn sorgmædd yfir að hafa skilið við þau.
Fékk símtal frá pabba þar sem hann stóð fyrir utan fasteignasölu, nýkominn frá því að undirrita kaupsamning vegna sölu á íbúðinni minni, sem er eiginlega ekki lengur mín. Í íbúð 103 tókst ég á við röð áfalla í lífi mínu sem á tveimur árum tók dembur og dýfur og kollhnísa af slíkum stærðargráðum að frúin sem flutti þangað inn var ekki sama frúin og flutti þaðan út. Ég tók mér góðann tíma í að horfast í augu við að ég myndi selja fasteignina því þrátt fyrir áföll þá leið mér alltaf vel í Veghúsum, þrátt fyrir að margt af mínu drasli hefði aldrei farið lengra en inn í geymslu þá var Veghús sannarlega mitt heima. Þrátt fyrir fjölbýlið má segja að íbúð 103 sé einbýli í fjölbýli með sinn afgirta garð og stæði í bílskýli. Upphaflega ætlaði ég mér að leigja íbúðina og snúa aftur eftir árs dvöl í París. Hugsanaferlið sem síðan fór í gang endaði með sölu og ég get ekki neitað því að það er enn pínu skrýtið að íbúð 103 sé ekki lengur mín. Sölunni fylgir þó enginn tregi.
Treginn felst í því að ég mun ekki lengur heyra Bjössa mjálma af veröndinni og Birtu þjóta í gegnum kattalúguna. Ég mun ekki lengur vakna með mjúka Birtu sofandi á upphandleggnum og ekki heldur fara fram úr til að strjúka mjúkann Bjössakvið á bleikum sófa áður en ég helli uppá kaffið.
4 ummæli:
Yndislegt :-)
Ég elska þig elsku vinkona :-D <3
❤️❤️❤️
Njóttu þín vel á nýja staðnum. Gott hjá þér að vita að nú er allt frágengið og þú getur opnað nýjan kafla i lífsbókinni þinni.
TAKK Ragna mín! Þó endanleikinn sé ljúfsár þá er einnig spennandi að hefja nýjan kafla og oft á tíðum nauðsynlegt að fletta yfir á næstu síðu <3
Skrifa ummæli