Bjallan á ísbílnum glumdi í næstu götu og það rifjaðist upp fyrir mér að einhverju sinni var til kynlífstækjabíll sem keyrði á milli hverfa, rétt eins og ísbíllinn. Ekki að ég hafi neina reynslu af slíkri bifreið, ónei, minnir að ég hafi lesið um þetta í einhverju blaði á góðæristímabilinu heimsfræga þegar einhleyp kona eins og ég varð allt í einu fær um að festa kaup á íbúðarskonsu undir sjálfa sig án nokkurra ábyrgðarmanna. Jú, svei mér ef þetta var ekki bara grein í Fréttablaðinu. Nei andskotakornið, mig hefur varla dreymt þetta.
Þegar ísbílsbjallan glumdi í minni götu mundi ég eftir nýju vegan íspinnunum sem ég gleymdi að setja inn í kerfið áður en ég fór úr vinnunni áðan. Hringdi í ofboði í hinn Péturinn í lífi mínu en lét það alveg vera að minnast á kynlífstækjabílinn.
Í sumarfríinu nýafstaðna notaði ég hvert tækifæri sem gafst til að fá mér ís; einu sinni, tvisvar, já, allt upp undir þrisvar á dag. Hvort heldur sem var í Frakklandi, Ítalíu eða Sviss þá var það ávalt kaffiísinn sem stóð uppúr.
Í kvöld ákvað ég að fylgja leiðbeiningunum aftan á Sólgætis Kínóapakkanum: "Látið standa í 5-10 mínútur. Sjálf megið þið sitja." Hver fær staðist slíka hnyttni spyr ég nú bara?
1 ummæli:
Kemur það fram í þessu óljósa kynlífstækjabílsminningarbrotshugboði hvort hann hafi hringt bjöllum á svipaðan hátt og ísbíllinn gerir? Það hlyti að vera athyglisverð sjón að sjá fólkið þyrpast að í ákafa svipað og börnin gera.
Skrifa ummæli