laugardagur, 8. febrúar 2014

Ó ljúfa matarlíf

Eftir langan vinnudag í gær fór frúin og keypti nýbrennt og ilmandi kaffi og fyllti gullvagninn af bensíni með kjúklingaleggi í töskunni. Er heim var komið grýtti hún kjúklingnum í karlinn sem tók á móti henni vælandi á sófanum með malandi kött og bók um hvað hann væri búinn að bíða lengi eftir ástinni sinni. Hvorugu varð meint af enda karlinn prýðiskokkur sem vippaði fram dýrindis kvöldverð úr grýttum kjúklingaleggjum að viðbættum lauk, paprikukryddi, appelsínuþykkni, púðursykri, soja, engifer, sérrí, salt og pipar eins og hendi væri veifað 


enda hlær sá myndarlegi bara að frúnni þegar hún lætur illa full meðvitaður um að frúin stenst ekki dásamlegt bros þess myndarlega


Eins og sá myndarlegi sé ekki nógu einstakur fyrir ofantalda eiginleika þá gerði hann sér lítið fyrir, eftir að hafa fært frúnni kaffi í rúmið, að blanda saman því litla sem til var í ísskápnum


kartöflum, blaðlauk og engifer, kryddað með tandúrí og túrmerik, hrærð egg og undir vökulu auga ásamt næmni kokksins


varð úr dásemdar spænsk ommeletta með asísku ívafi


hrist framan úr sloppermi þess myndarlega, borin fram með ristuðu brauði og upprúllaðri parmaskinku


Lífið. Ó lífið. Með myndarlegum manni.

Engin ummæli: