fimmtudagur, 29. október 2020

Títanik

Ætli það séu ekki ein 22 ár síðan ég fór með þáverandi kærasta í bíó að sjá stórmyndina Titanic. Svaðaleg stórmynd og svaðalega löng að auki. Engu að síður fór ég aftur í bíó nokkrum dögum síðar að sjá sömu svaðalegu stórmynd með ömmu minni. Eins og það væri nú ekki nóg þá fór ég örfáum dögum enn síðar í 3ja svaðalega sinnið að sjá sömu svaðalegu mynd. Ég veit, svaðalegt alveg, ég meina, við erum að tala um einhverja 9 kltíma allt í allt sem ég gerði mér ferð og greiddi fyrir að sjá Titanic í Háskólabíó. Ekki að ég hafi verið neitt svaðalega svag fyrir að fara í þetta 3ja skipti en amma var svo stórhrifin í hennar fyrsta skipti (mitt annað sumsé) að hún bara varð að komast aftur með Döggu systur sinni sem bara varð að sjá þessa stórmynd. 

Titanic var sýnd í bíóhúsum Reykjavíkur um vetur. Það veit ég vegna þess að ég tifaði yfir snjó og klaka með þær systur hangandi á sitthvorum handlegg. Reykjavíkurdæturnar Hallveig (fædd 1920) og Dagbjört (fædd 1919), báðar með hatt á höfði (enda á leið að sjá stórmynd í kvikmyndahúsi), hlógu sig í keng yfir að ríghalda í 23ja ára stráið mig enda sáu þær systur alveg fyrir sér að ef annarri hvorri þeirra myndi skrika fótur þá myndu þær auðveldlega kippa mér niður um leið.  

Já, frábær minning en eftir þessa 3ju ferð í bíó sór ég þess eið að ég myndi aldrei horfa aftur á Titanic. Hef og enda staðið við það í þessi rúm tuttugu ár. Þ.e.a.s. alveg þar til um síðustu helgi en þá varð mér það á að kveikja á sjónvarpsræflinum (stórhættulegt athæfi) og hvað haldið þið ekki annað en að Titanic hafi verið á dagskrá á DR1. Hugsaði með mér að það væri nú kannski í lagi að rétt kíkja á ræmuna (svona getur kona mildast með aldri). Komin niður í miðja mynd (að ég hélt) var ég farin að bölsótast út í sjálfa mig fyrir að standa aldrei við neitt sem ég segði, ég ætlaði jú aldrei að mæna á þessa sv*<"%**?!! ræmu aftur. Þegar ég ákvað að nú hlyti að fara að sjá fyrir endanum á þessu tók ég ákvörðun um að ég væri búin að horfa of lengi til að hætta við. Það sem ég vissi ekki þá var að enn var klukkutími eftir. 

Nú hef ég svarið þess rándýrann eið að ég muni aldrei, aldrei, horfa aftur á Titanic, það sökkvandi skip. Hlýt að halda það út í önnur tuttugu ár eða svo.

Engin ummæli: