Það er hungrið sem á endanum hefur mig á fætur, hungur sem farið hefur úr blíðri gælu um að gott væri að nærast yfir í yfirþyrmandi þörf sem malar hærra en kötturinn sem hringar sig upp við mig og æpir yfir orðin sem ég renni yfir á blaðsíðu bókar.
Búin að vökva beðin í garðinum mínum. Búin að drösla öllum blómum heimilisins út á verönd og vökva og sturta. Búin að tína nýjustu berin beint uppí mig. Búin að dæsa og andvarpa og dæsa svo aftur af óhaminni hamingju af veðri og verönd og veröld sem frúin er að skapa sér sjálf.
Í sambúðinni með sjálfri mér er ég að læra að ég má gera það sem mér einni langar. Ég þarf ekki að gera eitthvað eitt til að gera eitthvað annað. Ég þarf ekki heldur að gera eitthvað annað til að gera svo eitthvað eitt. Ég má einfaldlega gera það sem mér sýnist og það er einmitt það sem ég ætla að gera í dag og líklegast á morgun líka. Legg ekki meira á ykkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli