Vika síðan ég flutti til Parísar. Búin að fara í nokkra tíma í skólanum, hitta kennara og samnemendur, fara í siglingu á Signu í boði skólans, senda nokkur póstkort og eitt bréf, borða kvöldmat á mismunandi veitingastöðum, rölta um göturnar og er farin að kannast ágætlega við mig í hverfinu. Engu að síður er ég enn ekki fyllilega búin að átta mig á því að ég er flutt en ekki í enn einu fríi hér í Parísarborg. Ekki ólíklegt með öllu að dvöl á hóteli espi upp frífílinginn í frúnni en líklega síast daglega lífið inn með hverjum deginum sem líður. Þetta kemur allt með kalda vatninu eins og vitur kona sagði eitt sinn við mig.
Búin að hitta og spjalla við flesta af hinum skiptinemunum. Allt flott og frambærilegt ungt fólk, eftir því sem ég best fæ séð, fætt árið 2000 og síðar. Skemmtilegt sjónarhorn; þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda, sem au-pair til Ameríku, var ekkert þeirra fætt. Þegar ég kom aftur heim, óperuári síðar, voru enn 5 ár í að elsta þeirra fæddist. Ekkert þeirra kemur þó fram við mig eins og þann ellismell sem ég er í þeirra hópi, öll eru þau opin, brosmild, skemmtileg og áhugaverð. Ég er eina mannneskjan sem minni sjálfa mig á það að ég er nógu gömul til að geta verið mamma þeirra allra, ég sem veit manna best að aldur er afstæður. C'est la vie.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli