Ætla rétt að vona að þið sem álpist inn á síðuna mína, ranghvolfi í ykkur augunum þegar þið hafið jafnað ykkur á appelsínugulu ofbirtunni, sem hlýtur að hafa skorið ykkur í augasteinana við nýja útlitið á síðunni minni. Þannig leið mér allan síðasta vetur er ég leit í bölvaðar stærðfræðibækurnar. Er enn fremur snefsin yfir að hafa tapað komentunum mínum þegar ég ákvað í fyrsta skipti, rétt fyrir áramótin, að breyta útlitinu á síðunni. Svo fyrst ég er byrjuð (þó ekki að jafna mig á komentatapinu) mun ég halda áfram (hótun?). Er ekki búin að gera það upp við mig hvort ég nenni svo mikið sem að hugsa um að finna mér betra komentakerfi í stað þess sem troðið var inn á og upp á mig við skiptin. Er hins vegar rétt enn og einu sinni búin að segja grábölvaðri stærðfræðinni stríð á hendur.
Meðfram stríðsrekstri dagsins stússast ég í brauðbakstri og súpugerð. Óska þess oft að geta bara vippað mér í eldamennsku án þess að þurfa að snurfusa eldhúsið fyrst.
Gott annars að geta borið fyrir sig þrjósku í stað þess að játa upp á sig nautheimsku.
2 ummæli:
Er hún ekki nema farin að kvarta undan umgengninni í eldhúsinu (eða skorti þar á) á alnetinu sjálfu!
Svona læðist ég aftan að þér og tek þig traustu kverkataki! (engin ómótstæðileg ístra þeim megin).
Skrifa ummæli