Hringdi í mömmu til að tala við hana um veðrið. Einhverjum gæti þótt það tíðindalítið en þó er ekkert tíðindasnautt við regnið sem ýmist úðast fínt en þétt eða hreinlega hrynur af skýjum ofan. Eftir skammlaust sólarhangs á veröndinni í gær ýfði rigningin upp í mér löngun til að fara í sund, veit fátt betra en að synda í rigningu. Húðlæknirinn sem fjarlægði tvo fæðingabletti af mér í vikunni sem leið bannaði mér að fara í sund næstu tvær vikurnar. Sagði mömmu að mig langaði í göngutúr en að ég myndi líklegast hanga inni í allan dag. Þú ferð bara í regnföt sagði mamma. Æ, ég nenni ekki að hengja upp regnvot regnföt til þerris svaraði ég, ætli ég fari ekki bara að lesa. Stuttu eftir símtalið við mömmu stytti upp og ég herti upp hugann, leitaði uppi regnbuxurnar og jakkann, arkaði út um dyrnar vopnuð vongóðu. Gekk góðan hring um hverfið og fór svo annan hring því hvað haldið þið? Það rigndi ekki einum dropa á meðan frúin gekk!
Var rétt nýbúin að týna af mér regnplöggin og knúsa kisurnar þegar regnið steyptist niður að nýju. Rétt eins og mér þykir gott að synda í regni þá finnst mér að sama skapi ákveðinn sjarmi við að þramma í rigningu. Var samt glöð að sleppa við steypiregnið í dag og enn glaðari að ná góðri göngu sem nærir hjarta og sál.
Regnið vökvar garðinn, ganga vökvar mig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli