Þar sem ég kom akandi upp Ægisgötu, reiðubúin að beygja til hægri, sá ég bíl koma upp Túngötuna og steig því á bremsuna sem reyndist svo óþarfi þar sem Túngötubifreiðin beygði án þess að detta í hug að setja á stefnuljós því til kynna. Ökumaðurinn fyrir aftan mig var ekki jafn fljótur að stíga á bremsuna og ég. Út úr bílnum snaraðist skeggjaður ungmaður með afsökunarorð á vörum, reiðubúinn að játa á sig aftanákeyrslusök.
Sjálf var ég sultuslök, fljótandi af yfirvegun eftir klukkustundaflot í Hydra Float kvöldinu áður. Reyndi að sannfæra ungmanninn um að fall væri fararheill og helgin framundan hlyti að verða okkur báðum góð. Meint aftanákeyrsla reyndist meira núningur og ekki neitt að sjá á bifreiðinni.
Hlusta núna á ömmudjass og snarkið í kjúklingabringunum á pönnunni. Var búin að lofa þeim myndarlega spakkettíi í kvöld en skipti svo um skoðun í búðinni. Svei mér þá ef ég flýt ekki enn af vellíðan og ró.
Er á því að afslöppun sé vanmetin í nútíma samfélagi. Stefnuljós því miður líka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli