Stóð í bókabúð síðdegis í dag og gleypti í mig ljóðabók. Ég ætlaði bara rétt að kíkja í hana en áður en ég vissi af var ég búin með hana. Var hálf skömmustuleg er ég lagði hana frá mér, leið eins og ég yrði að kaupa hana en gerði það ekki, setti undir mig hausinn og arkaði út úr búðinni, út í Reykvíska dimmuna. Arkaði beinustu leið heim, þjökuð af samviskubiti yfir stolnum orðum.
Ég ætlaði ekki að gera þetta gæti ég sagt, orðin voru svo falleg að ég gat ekki hætt gæti ég líka sagt. Oscar Wilde sagði víst að besta leiðin til að losna við freistingu væri að falla fyrir henni en hvort hann átti við orðastuld er ég hreint ekki viss um.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli