þriðjudagur, 12. nóvember 2019

Hjólaði í vinnuna í morgun

Kom við í Sandholti og keypti krossant handa mér og hinum Pétrinum í lífi mínu, klædd í regnjakka og regnbuxur. Rigndi tvisvar á leiðinni.

Á heimleiðinni steig ég pedalana í lægsta gír með rokið og rigninguna í fangið, með fisk og kartöflur í  bakpokanum. Rokóratorían við Hörpu var svaðaleg en ég klauf hana á háa céinu. Í rigndumrokbarning á hjólabrautinni við sjávarsíðuna sá ég loks glitta í Höfða og fann til léttis, loksins að komast á áfangastað. Var búin að gleyma Turninum, skrímslinu sem vofir yfir Túnbyggðinni. Þar sem ég setti í herðarnar og bjóst til átaka við vindinn fann ég hviðuna hefja mig á loft, steig pedalana útí tómið, ríghélt í stýrið á hjólinu þar sem turnhviðan feykti mér hærra og hærra, svo hátt að ég glitti í Brad Pitt og Gwyneth Paltrow í lúxus íbúðinni á turnhæðinni eða nei, var þetta ekki Jennifer Aniston eða nei, djók! 

Ég setti bara undir mig hausinn og steig pedalana. Hjólið og kartöflurnar báru mig alla leið í Samtún þar sem ég steikti þær og fiskinn og fleira góðgæti sem ég fann í ísskápnum. Príma súrefnisinntaka, getið sveiað ykkur uppá það.

Engin ummæli: