Gekk hnarreist inn í bókabúð gærdagsins og beina leið að ljóðabókastaflanum sem ég staldraði örlítið við í gær. Rigsaði út með ekki bara eina, heldur tvær ljóðabækur. Já, að sjálfsögðu er önnur ljóðabók gærdagsins og já, það má vel vera að hin hafi slæðst með sökum samviskubits.
Frá bókabúðinni gekk ég yfir götu og inn á kaffihús þar sem ég pantaði mér kampavínsglas og eggin hans Benedikts. Engin sneypt yfir því. Gúffaði ljóðabók gærdagsins í mig aftur og skolaði hinni í mig með cappuchinoi með tvöföldu kaffiskoti.
Frá kaffihúsinu rölti ég niður að tjörn þar sem ég virti fyrir mér endur semja ljóð í svanasöng og dúfnakurri. Hvítur snjór, stilla og kuldi. Skrefin heim léttari en í gær.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli