þriðjudagur, 3. desember 2019

Matur er manns gaman

Cosmóbleikur
Á innan við tveimur mánuðum er ég búin að fara á Eiriksson brasserie þrisvar sinnum. Í fyrsta skiptið fór ég með systurdóttur minni, annað skiptið fór ég ein og nú síðast snæddi ég þar með tveimur góðum vinkonum. Mæli hikstalaust með Cosmopolitan og Martini espresso þarna að kona tali nú ekki um matinn, maður minn. Starfsfólkið natið og skemmtilegt.

Laugardaginn sem leið brunaði ég ásamt góðri vinkonu á Hótel Glym. Þar eyddum við kvöldinu í eðal félagsskap, röðuðum í okkur dásemdarmat af jólahlaðborði, hlógum svo skein í allar tennur yfir skemmtiatriði kvöldsins milli þess sem við spjölluðum við æskuvinina, borðfélaga okkar. Mesta furða að við ættum tíma aflögu til að tyggja allann góða matinn.
Bogga sæta syss

Í gærkvöld fór ég út að borða með Boggu systur minni. Ef Eiriksson væri opið á mánudögum hefði ég dregið hana þangað en Rok varð fyrir valinu í rokinu. Vorum ekki sviknar af misáfengum kokteilum, bragðgóðum smáréttum og brosmildri þjónustu. Þrátt fyrir vindasamt mánudagskvöld var staðurinn smekkfullur af fólki, túrhestum að sjálfsögðu, við systur gátum því talað tæpitungulaust um lífsins mál af hjartans alvöru og hlógum eins og hrossabrestir þess á milli.


Í kvöld steikti ég fisk. Samrýndu systkinin í Samtúni fengu að sjálfsögðu soðningu.

Legið á meltunni

Engin ummæli: