laugardagur, 7. desember 2019

Baroque

Stjórnandinn var rússneskur og vart kominn af barnsaldri, rétt liðlega þrítugur. Hann fetti sig og bretti, hoppaði og skoppaði, sveiflaði höndum og hármakka. Bach og Telemann fyrir hlé. Lully og Rameau eftir hlé. Út undan mér sá ég konu sem svaf vært með opinn munn og allt. Í hléinu heyrði ég þessa sömu konu segja vinahjónum sínum að hún ætti kannski að fara í jóga en að hún slakaði best á á Sinfóníutónleikum.

Þýskararnir voru góðir en ég heillaðist meira af frökkunum. Mér á vinstri hönd sat maður í blárri skyrtu, á hægri hönd kona í rauðum jakka. Bæði voru þau gráhærð. Sjálf var ég í svörtum kjól, í rauðri jólapeysu. Ein á tónleikum. 

Eða nei, reyndar ekki, ég var langt í frá ein, ég var með sjálfri mér. Það er ekki amalegur félagsskapur get ég sagt ykkur. Legg ekki meira á ykkur elskurnar.

Engin ummæli: