þriðjudagur, 17. desember 2019

Jólakettir

Það skiptir samrýndu systkinin í Samtúni engu máli hvort borðarnir eru grænir, rauðir eða gylltir, þau eru fljót að stökkva til um leið og þeir hreyfast og elta endana fram og aftur og aftur til baka. Að hamast í skrjáfandi jólapappír lítur út fyrir að vera mikil skemmtun milli þess sem þau skríða ofan í jólagjafapoka. Pakkaskraut af öllum gerðum er elt á milli hæða og finnst ýmist í stiganum eða eldhúsinu, svefnherberginu eða já, bara hvar sem er í húsinu. 

Meðan systir mín dvaldi í París dvaldi ég í íbúðinni hennar í Kópavogi. Tók lyftuna á hverjum morgni niður í bílakjallara og keyrði í vinnuna eins og fín frú, þvílíkur lúxus að þurfa ekki að skafa, maður minn. Var orðin svo heimakær að ég greip með mér bók sem mágur minn hafði tekið á bókasafninu þegar ég neyddist til að fara aftur í Samtún. Eins og margir góðir krimmar hefst sagan á líkfundi en þessi bók, sem er frumraun sænsks aristókrata, er enginn einfaldur og harðsoðinn krimmi heldur mikil örlagasaga sem greip mig strax á fyrstu síðu, örlagakrimmasaga með þéttri fléttu og sögulegri innsýn. Ef þú átt tök á að lesa þessa bók, lestu hana þá.

Á morgun er síðasti skiladagur, ég neyðist því til að bruna á bókasafn í Kópavogi eftir vinnu. Hvað sem öðru líður þá er ég búin að pakka inn síðustu jólagjöfinni. Enda sofa systkinin vært, Bjössi í rauðum ruggustól ömmu Boggu og Birta ofan í töskunni minni. 

Engin ummæli: