Þrátt fyrir nokkur heimboð frá fjölskyldu og vinum kvaddi ég gamla árið ein. Fagnaði því nýja líka ein. Heima hjá mér, með sjálfri mér, í nýju íbúðinni minni.
12 ára sambandi okkar Péturs er lokið. Korter í jól fékk ég nýju íbúðina mína afhenta, alls forvendis, átti ekki að gerast fyrr en um miðjan janúar. Skrifaði undir kaupsamning á föstudegi, fékk afhent á laugardegi, flutti á sunnudegi, eða þannig. Flutti svefnsófa, ruggustól ömmu Boggu, kommóðuna hennar mömmu og annað sem tilheyrði mér án þess að raska komandi jólum Péturs, langaði ekki neitt að skilja hann eftir með hálfa búslóð korter í aðfangadag með foreldrum sínum. Sjálf brunaði ég vestur í Kolbeinsstaðarhrepp eftir vinnu á aðfangadag til foreldra minna sem pökkuðu mér svo þétt í bómull að ég komst ekki úr náttfötunum á jóladag, umhyggja þeirra jaðraði við umhyggjuofbeldi, hafa hlustendur heyrt um slíkt?
Milli þess ég sem pakkaði ofan í kassa í Samtúni, vann í Melabúðinni, bar inn kassa í Veghúsi þá hvikaði ég hvergi frá því að vera sú manneskja sem ég er. Já, ég er hrædd. Já, ég veit ekkert hvað þetta ár ber í skauti sér. Já, ég er fegin að vera laus við hluti sem öngruðu mig mjög mikið en já, ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég á eftir að sakna Péturs og alls sem við áttum, eða áttum ekki, eða.... já, hver veit.
Eftir vinnu í gær drakk ég kaffibolla með systur minni. Drakk líka kaffibolla með bestu vinkonu minni. Kom heim til mín og eldaði humar, drakk doldið kampavín og fór svo að sofa rétt eftir miðnættið.
Í morgun drakk ég kaffi í rúminu og las í bók. Fór út í göngutúr. Í dag er nýr dagur og ég hef ekki hugmynd hvers er að vænta. Það er harla gott.
4 ummæli:
Þetta er verkefni. Þau eru allskonar verkefnin sem okkur berast.
Satt er það mín kæra, ég hallast alltaf meira og betur að því að stærsta verkefnið sé að hlúa að sjálfum sér.
Kæra Katla, þú hefur verið hluti að mínu lífi, á netinu svo lengi að þessi frétt kemur mér á óvart, þið hafið átt svo góðar stundir saman innan lands og utan, ekkert nema ást og sæla, en svona geta hlutirnir snúist við á augabragði. Mér finnst ég skilja svo vel hvernig þér líður er nú búin að vera án stóru ástarinnar minnar í eitt ár, gegn vilja okkar beggja. Lífið er svo undarlegt, en við verðum að horfa björtum augum til framtíðar sem við vitum þó ekki hvað hún færir okkur. Það er erfitt að vera ein eftir svona langt samband, það tekur tíma að venjast því en við skulum vera vongóðar um að við getum tekið gleði okkar aftur og sætta okkur við nýjar aðstæður. Bestu óskir um gleðilegt ár, takk fyrir allar skemmtilegu myndirnar og frásagnirnar á liðnum árum.
Elsku Þórunn mín, er hálf orðlaus yfir þínum frábæru skrifum hér! Hjartans knús og kveðjur <3
Skrifa ummæli