Búin að bera níðþunga bókakassa, kerti í potti, fleiri kíló af hljómplötum, áfengi í kössum utan af kisumat, föt í svörtum plastpokum og kokkablöð í bútasaumstösku frá mömmu.
Með prentsvertusvarta fingur hef ég tekið bolla, undirskálar, diska, vasa og kertastjaka upp úr kössum, svo fátt eitt sé nefnt. Hef neyðst til að vaska mikið af þessu upp áður en ég gat gengið frá því inní skápa. Ekki að ég sé að fara að flytja á næstunni en nennið þið að minna mig á að nota ekki Fréttablaðið aftur til að pakka niður brothættu dóti?
Föstudagskvöld fór ég út að borða með frábærum vinkonum og naut mín í þeirra góða félagsskap. Vaknaði örlítið rykug á laugardagsmorgni en lét það ekki stoppa mig í að klára lestur á Vetrargulrætum Rögnu Sigurðar. Dreif mig því næst í Samtún og pakkaði og pakkaði og keyrði svo smekkfullann bíl heim í Veghús. Eyddi laugardagskvöldi í að taka uppúr kössum og pokum og töskum og ganga frá. Já, og þvo mér um hendur, prentsvertuhendur.
Í morgun keyrði ég út úr bílakjallaranum með gleði í hjarta og bílinn fullann af tómum pappakössum sem ég fyllti í Samtúni. Um miðbik dagsins beilaði ég á yndislegri vinkonu sem var búin að bjóða mér á forsýningu í bíó í kvöld. Keyrði smekkfullann bíl heim í Veghús með grátbólgin augu. Í dag eru 12 ár síðan ég hitti Pétur fyrst. Veit ekki alveg hvort það var sú tilhugsun eða að fylgjast með Samtúninu hálftæmast sem ærði skilnaðarblúsinn upp í frúnni.
Hvort heldur sem er þá var ég döpur og meyr í dag, meyr og döpur og skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það.
2 ummæli:
Elsku Katla, mikið ertu dugleg að sjá um allt þetta sjálf, og við þessar aðstæður að slíta sambandi sem hefur gefið þér svo mikið. En af skrifum þínum sé ég að þú ert sterk og kemur þér vel fyrir og hefur nýtt líf með allt eins og þú vilt hafa það. Þetta verður smám saman betra þó þú sért döpur núna. Það er rétt hjá þér að opna þig og segja vinum þínum frá hvernig þér líður. Ég óska þér blessunar og góðra daga með hækkandi sól. Þórunn
Elsku bloggvinkona, hjartans þakkir fyrir þín fallegu orð <3
Skrifa ummæli