Þar sem ég sat í bílnum, fyrir utan bankann, og ætlaði að fara að ræsa bifreiðina vatt sér karlmaður inn og settist í farþegasætið við hliðina á mér. Ef ég ætti að giska myndi ég skjóta á að hann væri c.a. 5 árum eldri en ég og af klæðaburði gæti ég einnig ályktað að maðurinn sé iðnaðarmaður. Með fullri vissu get ég staðhæft að honum krossbrá er hann sá mig, baðst afsökunar í bak og fyrir meðan ég skellihló. Eymingjans maðurinn ætlaði sumsé að hlamma sér í bifreiðina sem var lagt við hliðina á mínum bíl.
Í dag, eftir vinnu, hleypti ég karlmanni inn í íbúðina mína. Ef ég ætti að giska þá gæti ég trúað að hann væri á mínum aldri, ef ekki örlítið yngri. Ég veit fyrir víst að hann er iðnaðarmaður. Hann skildi skóna sína eftir fyrir utan íbúðina mína, mældi glerið í verandarhurðinni minni í bak og fyrir, skráði tölur í skrifblokk sem hann hafði meðferðis, var líka með tölur skrifaðar á handarbakið. Skoðaði kattalúguna sem ég keypti í gær í krók og kima, arkaði svo með hana undir handleggnum útí veðrið. Sagðist verða í sambandi.
Var rétt í þessu að fá svo hljóðandi (eða lesandi) sms; Hver er þetta
Ekkert spurningamerki, enginn punktur. Tvær hringingar fylgdu í kjölfarið úr þessu sama númeri sem ég þekki ekki, þar af leiðandi svaraði ég ekki. Af röddinni, sem talaði inn á talhólfið mitt, að dæma get ég ályktað með nokkurri vissu að hringjandinn er karlmaður. Aldur og fyrri störf verður að liggja á milli hluta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli