mánudagur, 9. júní 2008

Dæs

Hjásvæfan reyndist of örmagna til að sýna öll sín bestu tilþrif við straubrettið. Ég veit ekki hvort það var áreynslan við að fara í boltaleiki fyrr um daginn, álagið við að pakka ofan í tösku fyrir vikuferðalag, áhyggjurnar yfir að skilja glænýja Weberinn eftir í heila viku eða Majorkafiskurinn sem ég matreiddi, en maðurinn er svo sannarlega myndarlegur og það reyndist mér auðvelt verk að fyrirgefa honum að veita mér athyglina í stað brettisins. Ég fékk svo þær indælu fréttir að systir mín hefði komið ungviðinu frá sér á met tíma og reyndist það vera stúlka.

Rigningin á laugardag var indæl – bara passlega mikið rok með henni svo hún rann næstum beint niður, tilvalin veðurskilyrði fyrir löngum göngutúr, enn indælla að rífa sig úr blautum leppunum og teygja úr sér í heitu freyðibaði á eftir.
Um kvöldið hitti ég svo fugl ástarinnar, apaköttinn og greifann á Santa María þar sem ljúffengar Lime Margarítur og enn ljúffengari matur rann ofan í okkur. Með fulla maga af mat en þyrstar kverkar færðum við okkur yfir á Boston.
Kvöldið einkendist fyrst og fremst af miklum hlátri og okkur tókst með ágætum það ætlunarverk okkar að haga okkur eins og við værum 17 ára aftur: hlutverkaskipan – karaktertækni – aulahúmor - 3 myndavélar og 1 gsm á lofti til að dokumentera herlegheitin.

Ég fann um leið og ég vaknaði á sunnudeginum við bröltið í kettinum, að það var komið að því að borga fyrir hláturþerapíuna kvöldinu áður – ég borgað glöð með miklum svefni enda hafa allir mikið meira en gott af því að hlægja dátt og innilega. Fór svo í langann göngutúr um kvöldið með greifanum, fengum okkur súpu á Óliver og hristum af okkur restinni af skulda-lægðinni.

Það er doldið síðan ég áttaði mig á því að mánudagar eru ekkert verri dagar en aðrir, mér þótti því indælt að hafa mig fram úr í morgun og byrja nýja viku – hvernig er líka annað hægt þegar maður á indæla vini, indæla hjásvæfu til að sakna næstu 4 dagana, og án vafa indælann nýjann fjölskyldumeðlim sem mig hlakkar mikið til að hitta. Eina sem ég gæti helst óskað mér núna er að indæli kötturinn minn nenni að hanga með mér í kvöld, gæti vel hugsað mér doldið mal og kúr.

Engin ummæli: