fimmtudagur, 17. júlí 2008

PPP

Ég er svo lánsöm að þykja gaman að elda – meira að segja mjög gaman að elda. Skemmtilegast finnst mér að elda eftir uppskrift. Svo gaman að þrátt fyrir að hafa búið ein sl. 1,5 ár elda ég nánast alltaf eftir uppskrift, þó það sé máltíð handa mér einni hugsanlega í félagsskap kattarins. Ég á mér þó letirétt en ég gríp örsjaldan til hans.
Mér þykir eiginlega gaman að öllu ferlinu. Mér þykir gaman að velta mér upp úr uppskriftum og setja saman matar- og innkaupalista. Ég ætla svo sem ekki að halda því fram að Bónus sé neinn skemmtistaður, en ég hef gert margt leiðinlegra en að versla. Minn galdur er einfaldlega sá að vera doldið skipulögð – fara á þeim dögum sem mér henta og versla doldið inn í einu.
Eftir að ég kynntist hjásvæfunni - sem er mjög liðtækur í eldhúsinu - og eyði sífellt meiri tíma með honum, hefur þessi matar rútína mín riðlast svo, að oft á tíðum liggur við að það eina matarkyns sem til er í mínum skápum, er kattamaturinn.
Ég var því ákveðin í að setja saman stutta útgáfu af matarlista, fara í búð og eyða svo tíma með sjálfri mér og kettinum heima hjá mér, í mínum eigin huggulegheitum í gær. Og hvað gerir Frú Sigurbjörg? Jú, eldar letiréttinn!

Pasta, pestó, parmesan. Ekki bara er hann einfaldur, þessi þrjú hráefni þykja mér afskaplega góð. Mikilvægast þó – hann gengur með öllum tegundum af rauðvíni.


Í kvöld verður þó bragarmunur á - ætla að elda góðann mat handa góðum vin.
Hver er annars ykkar letiréttur?

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Pasta letiréttur: spaghettí, tómatar, chili, ólívur og parmesan.
Heill kjúklingur er líka letiréttur (að því gefnu að maður sé ekki bæði latur og vilji borða á næsta korteri) hjá mér - salt, pipar, sítróna kreist yfir og troðið inn í kjúklinginn og hellingur af hverjum þeim kryddjurtum sem til eru.

Últimate letiréttur er samt súrmjólk með cherrios og lesa kokkabók með (þá blöffar maður augun og heldur að maður sé að borða svaka fínan mat).

Nafnlaus sagði...

Letirétturinn minn er :

Eggjanúðlur – tekur 3 mín að sjóða þær
Tekur svo kjúlla og skerð í bita og skellir á pönnuna
Kryddar með salt, pipar og einhverju sem þér þykir gott.. td fiskikrydd er gott
Skerð niður í flýti og í grófa bita
Sveppi
Papriku
Rauðlauk
Skellir þessu öllu á pönnuna með kjúllanum og svo eggjanúðlunum með á pönnuna þegar þær eru soðnar

Svo ef manni langar í sósu með ( mér persónunlega þykja sósur ekki góðar)
þá er hægt að skella ½ flösku af Stir fry sósunni á pönnuna og malla í svona 1 mín og hræra saman með öllu

Mjög gott að borða td með hvítlauksbrauði sem fæst tilbúið í pakka og mar skellir í örrarann..

Það tekur svona 10 mín með öllu að massa þennan rétt :) og hann er líka hollur ( ef mar sleppir sósunni ) hehhe
Góða helgi snúllan mín ;)

Nafnlaus sagði...

Taka það grænmeri sem finnst í ísskápnum, best ef ég á líka rauðlauk því hann er svo bragðsterkur. Skera svo í fljótheitum niður og skella á pönnu með olívuolíu og strá smá grænmetiskryddi yfir. Láta krauma í nokkrar mínútur, eða á meðan kjúklingabringan sem ég byrjað á að skera í svona 4 renninga,krydda og setja í Formann grillið er tilbúin. Þetta þarf ekki að taka nema svona 10 mínútur og er alveg veislumatur. -Ekki verra að eiga smá kalda piparsósu í ísskápnum. Umm.

TAP sagði...

Já þú segir nokkuð!
Letirétturinn sem ég fæ mér svona yfir sumartímann er salathaus úr sveitinni (lífrænt ræktað með húsdýraáburði auðvitað) blöðin þvegin og sett í skál og góð olífuolía + salt stráð yfir og pínulítið edik (einn dropi). Þetta er dásamlegt með smábita af bagettu eða kjallarabollu.

Fiskpasta er annar réttur sem ég elska og er eldsnöggur að búa til eða eins lengi það tekur pastað að sjóða.

Setja pastavatn í pott og hitann á fullt. Ólífuolía á pönnu, einnig á fullt og saxa lauk í smátt og setja í heita olíuna. Þegar laukurinn er orðinn gullinbrúnn skal setja eina dós af "Super flaede tomater" frá Krónunni og mauka þá með gaffli. Einnig er gott að setja eina papriku og/eða 1/2 rauðan chillipipar. Kryddað með basil (arabíska útgáfan) salt og pipar, dash af soyasósu og smá rauðvínsedik eða smá gamalt rauðvín. Þetta má svo malla aðeins á meðan vatnið fyrir pastað er að ná suðumarki. Þegar vatnið sýður skal taka tvo flök af frosinni ýsu (þrjú lítil) og leggja yfir sósuna, krydda með pipar og smá salti og setja svo lok á pönnuna og skrúfa niður hitann. Setja pastað svo í sjóðandi vatnið og þegar pastað er hálfnað í suðu þá snúa við fiskbitunum og hylja þá með sósunni og loka pönnunni aftur.

Þegar pastað er tilbúið skal setja það í skál og svo sósuna yfir og hræra aðeins í öllu saman - laust því fiskurinn er viðkvæmur á þessu stigi! Setja smá ferska steinselju yfir og servera með rifnum parmesan.

Svo má gera tilraunir með mismunandi krydd og nota t.d. smokkfisk í staðinn fyrir fiskinn. Einnig kemur vel út að steikja pólska pilsu með lauknum og sleppa fisknum.

:o)

Frú Sigurbjörg sagði...

Takk fyrir þessar fínu uppskriftir - mun svo sannarlega prófa þær allar við tækifæri!