Sá myndarlegi treystir sér ekki í langar göngur þessa dagana og stakk uppá bíltúr í staðinn. Þú sem ert nú úr bíltúrafjölskyldu sagði hann rogginn með sjálfan sig yfir hugmyndinni. Féllst á þetta með semingi eftir að hann hafði lofað að smyrja samlokur og hafa kaffi á brúsa með. Mosfellsheiði, Uxahryggir, Kaldidalur, Húsafell, Kleppjárnsreykir, Skorradalsvatn, Draginn, Hvalfjörður, Kjósaskarðsvegur, Mosfellsheiði. Vorum að koma heim.
Malbik og malarvegur, rok og rigning, galíslenskt landslag og frönsk músík í bílnum, vaðandi túristar og sauðfé á vegunum. Rukum í nokkur skipti út úr bílnum til að taka myndir, t.d af girðingastaur, fjöllum, skýjum og steinum. Sáum fullt af fallegu landslagi, fjöllum sem vert væri að ganga á og athyglisverðum gönguleiðum. Drukkum kaffið í bílnum, nenntum ekki að breiða úr teppinu í rokinu til að maula dýrindis Pésasamlokurnar.
Höfðum hugsað okkur að fara í sund í Húsafelli. Sá myndarlegi ákvað að sýna mér fyrst bústaðinn sem vinir okkar eiga þar uppfrá, ef hann rataði þ.e.a.s. Ekki bara rataði karlgarmurinn heldur voru vinir okkar stödd í umræddum bústað ásamt börnum, barnabörnum og tengdasyni. Ekki bara vorum við mætt þarna óvænt í heimsókn heldur önnur vinahjón þeirra líka. Yfir kaffibollum og fjörugum samræðum komumst við síðan að því að vinur þeirra reyndist ekki bara skyldur tengdasyni þeirra, hann er líka náskyldur mági mínum og fyrrverandi eiginkonu þess myndarlega.
Ísland er stórkostlega mikil þúfa. Enda ætlum við myndarlegi aftur í bíltúr á morgunn, getið sveiað ykkur uppá það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli