Hvað er krísa? spurði stúlka vinkonu sína á kaffistofunni í dag. Æ, það þýðir það sama og kaos svaraði vinkonan. OK, sagði stúlkan, þú talar stundum eins og eldgömul 53 ára kelling þúst. Það er nefninlega það hugsaði ég sem væntanlega er orðin vel miðaldra í þeirra augum.
Arkaði heim meðfram sjónum eftir vinnu með vindinn í fangið og prísaði mig sæla með rigningarleysi. Annað en á sunnudaginn sem leið, rigning og ský gerðu það að verkum að afmælisgjöf þess myndarlega var afbókuð. Kaffi í rúmið, kampavín og krossant á sófanum og út að borða um kvöldið varð því að duga. Í gær glennti sig sólin og ég brunaði fyrr heim úr vinnunni til að sækja karlinn. Í gær viðraði prýðilega til þyrluflugs sem var hreint stórskemmtilegt enda mitt fyrsta þyrluflug, karlinn er auðvitað svo sjóaður að hafa ekki bara ferðast með þyrlu heldur með heilt tökulið með sér. Jájá, allt gott og blessað með það, hann hafði allavega ekki lent á Stóra Bolla áður til þess eins að dreypa á kampavíni, alveg glæný "2007" hegðun fyrir hann skal ég segja ykkur.
Karlhróið hlunkaðist annars yfir á 57. árið s.l. sunnudag. Ekki veit ég hvað vinkonurnar á kaffistofunni hefðu sagt um það, enda þagði ég þunnu hljóði. Lái mér hver sem vill.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli