Eins og umbúðirnar bera með sér hefur eitthvað og dulítið gengið á en hvað það var veit ég ekki heldur. Á skældum pakka sem þessum er enginn heilbrigður gjörningur að lesa á best fyrir dagsetningu sem er gott, best fyrir er bara blöff til að fá neytandann til að kaupa oftar og meira en hann þarf. Vodkinn sem ég blandaði hestaradísunni saman við var skilinn eftir í ísskápnum okkar af tveimur geðþekkum frökkum í ágúst 2015. Síðan þá hefur vodkaflaskan vermt stað í frystikistunni niðrí kjallara, einstaka sinnum dreginn aftur upp á efri hæðina til að hristast saman við kokteil(a). Í kvöld sumsé var flöskunni dröslað upp til að blandast saman við útþvælda hestaradísu, tómatsósu, tabaskósósu, Vúrstersjérsósu, salt, pipar og majónes. Rækjum skellt saman við og geymt í kæli þar til sá myndarlegi kom heim úr ræktinni. Þá fleygði frúin brauði inní ofn, skar sundur lárperur, henti blindfullri rækjunni yfir og smurði þykku smjörlagi á heitt brauðið. Ef einhvað er að marka John Torode (sem ég hef ekki hugmynd um hver er) þá var frúin að bjóða þeim myndarlega uppá retró lárperu með rækjum í Blóðugri Maríu majónesi
Sel það ekki dýrara en ég keypti það en við myndarlegi erum sammála um að þessi rækjukokteill var með þeim betri og já, það álit er með tilliti til sterkrar rækjukokteilhefðar hér á heydögum landans. Ef þið trúið okkur ekki þá ragmana ég ykkur bara til að prófa uppskriftina.
Hvað afganginn af vodkaflöskunni varðar þá má bjóða okkur myndarlega í kokteil hvaða kvöld vikunnar sem er.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli