Drukkum morgunkaffið í brakandi blíðu á svölunum og ákváðum að drífa okkur í göngu. Þ.e.a.s. eftir að sá myndarlegi var búinn að slá garðinn. Ég sauð egg á meðan. Vorum búin að ákveða að ganga á Mosfell en tókum svo stefnuna á Hvalfjörð. Gengum á Þyril í svo mikilli blíðu og kyrrð, fuglasöngur og lækjarniður og já, jafnvel býflugnasuð var sem englasöngur í stórbrotinni náttúrunni, tignarleg fjöll, litfagurt og spegilslétt haf, grænar hlíðar og litrík blóm, var bara hársbreidd frá því að hefja trú á almættið enda blakti ekki hár á höfði frúarinnar.
Vorum að koma heim og sá myndarlegi fór strax og fíraði upp í grillinu og skar niður kartöflur og lauk. Kjötið fór í maríneríngu í gær. Sit á veröndinn í grillreyk, með sólina í andlitinu og rauðvín í glasi. Almættið krakkar, almættið, það er enginn guð en lífið sjálft er ekkert minna en stórkostlegt, ég er að segja ykkur það. Núna ætla ég að borða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli