Um daginn röltum við myndarlegi í bæinn þar sem við stungum okkur inn á Jómfrúna, sátum þar yfir smurbrauði og víntári, undir dillandi bongójassi og hávaðasömum flugvélum. Daginn eftir um daginn brunuðum við í barnaafmæli á Hvolsvöll, knúsuðum sætar systur, átum súpu og kökur, drukkum kaffi og spjölluðum. Eitthvert kvöldið eftir þessa daga þarna um daginn fórum við með mömmu út að borða á hávaðasömum veitingastað í bænum, átum rausnarlega af svakalega góðum mat, drukkum temmilega af rauðvíni með og hristum svo skankana í Hörpu þar á eftir í takt með Kool & the gang.
Þessir þrír atburðir eiga það allir sameiginlegt að frúin var með maskara. Eftir að ég fékk kvef þarna um daginn, daginn þá nennti ég ekki að setja á mig maskara á morgnana, enda þrútin um augun og leiðinlegt að vera með kvef eins og ég var búin að segja ykkur. Það er bara svo asskoti þægilegt að vera laus við að maskara sig hvern dag. Jújú, ég get svo sem alveg viðurkennt að suma daga þegar ég lít í spegilinn finnst mér eins og það vanti á mig andlitið og vissulega (og blessunarlega) er ég löngu laus við kvefið, ég nenni bara samt ekkert að setja á mig maskara á morgnanna. Set bara á mig maskara þegar ég nenni og vil og heilmikið frelsi í því fólgið, skal ég segja ykkur.
Sá myndarlegi er í afmælispartýi í heimabænum með móður sinni níræðri. Sálf ætla ég að hitta yndislegar vinkonur í kvöld. Spurning hvort ég splæsi maskara í það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli