mánudagur, 26. júní 2017

Af óbermi ómunatíðar

Eftir að hafa lesið pistil frúarinnar í gær fann sá myndarlegi sig knúinn til að minna hana á að hann hefði ekki bara slegið blettinn fyrir gönguna góðu, hann hefði jú líka snyrt klifurjurtina (hér eftir kallað óbermið). Óbermið sumsé hríslast upp gaflinn á Samtúni 8, breiðir úr sér milli glugganna í stofunum, þ.e.a.s. betri stofunnar og hinnar stofunnar (er hægt að vera svo fínt fölende að kalla aðra stofuna verri stofuna?). Á hverju ári talar sá myndarlegi í sig kjarkinn til að taka fram stigann og ráðast á óbermið sem á hverju ári teygir hríslur sínar yfir glugga og upp á svalir. Á hverju ári hóta ég þeim myndarlega að fara út í garð og klippa ræturnar á helv*+<! óberminu sem mér finnst subbulegur þarna á gaflinum, lítur helst út eins og hárlubbinn á Davíð Oddsyni þar sem það flækist út um gafl og trissur, bölvað óbermið. Í ofanálag er ég hætt að opna annann gluggann í betri stofunni, glugga sem snýr svo gott sem út í bév¨#*%? óbermið, því ef ég geri það skríða von bráðar pöddur inn sem mig langar hreint ekki til að fá, við erum jú að tala um betri stofuna.

Ég hef aldrei skilið kindarlega svipinn sem hefur komið á þann myndarlega þegar ég lýsi áliti mínu á óberminu, ekki fyrr en í fyrra þegar hann játaði það loks fyrir mér að hún hefði ekki fylgt húsinu heldur hefði hann og fyrrverandi fengið óbermið að gjöf og gróðursett sjálf á umræddum gafli. Það var nefninlega það. 

Þrátt fyrir að kæra mig ekki hið minnsta um að særa ástkæran eiginmann minn, móðga hans ágætu fyrrverandi og enn síður góðvini þeirra frá Þurá þá hótaði ég því samt að klippa á ræturnar í ár eins og öll hin árin. Óbermið er kannski ekki versta óbermið frá ómunatíð, en djöfull er það ljótt samt. 

Legg ekki meira á ykkur elskurnar. Lfið heil og blómstrið.

Engin ummæli: