miðvikudagur, 31. maí 2017

Af kvefleti og kartöflum

Ég er með kvef og það er leiðinlegt. Ó, hafið þið heyrt þennan áður? Kom heim úr vinnunni með þorskhnakka í töskunni. Núnú, líka heyrt þennan?  Jæja þá, ég nennti ekki að elda og ekki reyna að halda því fram að það hafið þið líka vitað.  

Letinnar vegna skar ég nokkrar kartöflur í búta, afgang af rauðlauk, nokkur hvítlauksrif í tvennt, saltaði, pipraði, klippti tvær greinar af rósmaríninu sem stendur í potti úti á verönd, dembdi slatta af ólífuolía yfir og henti inní ofn. Einfalt og þægilegt? Já. Bragðgott og ilmandi? Ójá!
Sólin skein (og skein ekki) og sá myndarlegi dútlaði við að koma kryddjurtum og salati haganlega fyrir í kassa hérna á veröndinni, haltraði nokkrar ferðir í safnhauginn að sækja mold, blásandi af elju og vinnusemi. Sjálf sat ég ekki auðum höndum þarna úti á verönd, togaði tappa úr flösku og lyfti glasi, dæsandi af leti
Er ég ekki annars örugglega búin að segja ykkur hvað mér finnst skemmtilegar kartöflur skemmtilegar?
Verið spök elskurnar og munið eftir skemmtilegu kartöflunum næst þegar þið farið í búðina.

Engin ummæli: